Samkomubanni vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið aflétt að hluta í dag, 4. maí. Líkt og áður hefur verið auglýst verða fjöldamörk samkomubanns hækkuð úr 20 í 50 manns frá og með deginum í dag, skólahald í leik- og grunnskólum hefst með hefðbundnum hætti og ýmis þjónusta býðst landsmönnum á ný.
Hárgreiðslumenn mega til að mynda taka fram skærin í dag og taka á móti viðskiptavinum, eitthvað sem þeir hafa ekki mátt vikum saman.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, var meðal fyrstu viðskiptavina á rakarastofunni Herramenn í Hamraborginni klukkan níu í morgun.
Víðir fékk hársnyrtingu frá hárgreiðslumanninum Andra Tý Kristleifssyni og var Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari mættur á staðinn í morgun til að fanga þessi tímamót eins og sjá má hér að neðan.

