Handbolti

Aðstoðarþjálfarinn tekur við af Kára

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Rúnar Guðmundsson er orðinn aðalþjálfari Fjölnis.
Guðmundur Rúnar Guðmundsson er orðinn aðalþjálfari Fjölnis. MYND/FJÖLNIR

Handknattleiksdeild Fjölnis hefur gengið frá ráðningu Guðmundar Rúnars Guðmundssonar sem þjálfara meistaraflokks karla næstu tvö árin.

Guðmundur hefur undanfarin tvö ár verið aðstoðarþjálfari liðsins en hefur í mörg ár starfað hjá Fjölni sem þjálfari yngri flokka og sem styrktarþjálfari.

Kári Garðarsson hefur verið aðalþjálfari Fjölnis síðustu ár og undir hans stjórn vann liðið 1. deild í fyrra og komst þá einnig í undanúrslit bikarkeppninar. Fjölnir er hins vegar í 12. og neðsta sæti úrvalsdeildar nú þegar hlé hefur verið gert vegna kórónuveirufaraldursins, en tvær umferðir voru eftir og ljóst að Fjölnir myndi enda í fallsæti. HSÍ hefur hins vegar ekki ákveðið hvort tímabilið verði nú flautað af og hverjar afleiðingar þess yrðu.

Þetta verður frumraun Guðmundar sem aðalþjálfari í meistaraflokki. Á næstunni mun hann í samvinnu við stjórn Fjölnis fara í gegnum leikmannamál en ljóst er að liðið mun taka einhverjum breytingum fyrir næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×