Íslensk stjórnvöld undirrituðu í gær samning sem gerir þeim kleift að geta tekið þátt í sameiginlegum innkaupum Evrópuríkja á læknisfræðilegum viðbúnaðarvörum. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu stjórnarráðsins.
Aðildarríki samningsins geta staðið saman að innkaupum á lækningabúnaði, lyfjum, vöru og þjónustu sem eru nauðsynleg hverju sinni og munu geta fengið hagstæðari kjör og fljótari afgreiðslu. Nær öll Evrópusambandsríkin eru aðili að þessum samningi auk Bretlands og Noregs.
„Fyrir tæpri viku óskaði ég eftir því við utanríkisráðuneytið að það hlutaðist til um að Ísland gengi inn í samning um þessi innkaup. Það er mjög mikilvægur liður í því að tryggja landsmönnum örugga heilbrigðisþjónustu og stöðugleika í heilbrigðiskerfinu,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.