Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, leggur þunga áherslu á það að fólk hlíti samkomubanninu, sem var hert á miðnætti. Það sé mikilvægt að landsmenn fari eftir ákvæðum þess, eins og að passa að ekki safnist fleiri en 20 saman. „Við erum ekkert að grínast með þetta,“ sagði Víðir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hann segir að heilt yfir hafi gengið vel að framfylgja samkomubanninu. Þó hafi almannavörnum borist nokkur fjöldi tilkynninga um hugsanleg brot á banninu, auk þess sem embættið hafi fengið ógrynni undanþágubeiðna.
Sjá einnig: Hvað felst í hertu samkomubanni?
Það taldi Víðir til marks um það að hópur landsmanna átti sig ekki á mikilvægi samkomubannsins í baráttunni gegn kórónuveirunni. „Fólk verður að taka þessu alvarlega og fara eftir leiðbeiningum,“ sagði Víðir. „Þetta er mjög snúið og það er ekkert í samfélaginu að fara að virka eðlilega.“
Vísaði hann þar m.a. til þess að fjöldi fyrirtækja hefur þurft að gjörbreyta starfsemi sinni eða jafnvel loka eftir að samkomubannið var hert. Má þarf nefna fjölda veitinga- og skemmtistaða, hárgreiðslu-, snyrti og nuddstofa. Að sama skapi séu lönd um allan heim að grípa til sambærilegra, eða jafnvel harðari aðgerða með tilheyrandi röskun á daglegu lífi. Það undirstriki alvarleika og mikilvægi málsins.
Aðspurður um hvaða viðurlög séu við brotum á samkomubanninu sagði hann það ekki liggja nákvæmlega fyrir á þessari stundu. Þau skýrist þó mjög fljótlega eftir að upplýsingar berast frá ríkissaksóknara.
Svar Víðis má sjá að neðan.