Alls hafa nú sextán greinst með kórónuveiruna eftir að hafa komið í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu í Turninum í Kópavogi. Þetta staðfestir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samtali við fréttastofu.
Nú á tólfta tímanum í morgun var alls búið að greina 1600 sýni úr skimuninni. Í lok dags í gær höfðu níu greinst með veiruna þegar farið hafði verið yfir rétt rúmlega þúsund sýni. Kári segir hlutfall smitaðra nú þannig haldast í um einu prósenti, líkt og í gær.
Sjá einnig: „Fínn fyrsti kafli“ í vísindaskáldsögu um endalok mannkyns
Fram kom í máli Kára í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að um helmingur smitaðra úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar hefði ekki verið orðinn veikur. Hinn helmingurinn hefði verið með „venjulegt kvef“. Þá væri búið að raðgreina veiruna í tveimur þeirra sem greindust með veiruna. Annar þeirra var með S-gerð veirunnar og hinn með L-gerð.
Kári gerir ráð fyrir að um þúsund niðurstöður til viðbótar verði tilbúnar í kvöld, og greind sýni verði þá alls 2500. Þegar hafa þúsundir manns skráð sig í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu og bókað er í skimun langt fram í tímann.