Fimmtíu þúsund skammtar af bóluefni lyfjaframleiðandans Pfizer berast hingað til lands fram í mars en fyrstu tíu þúsund skammtarnir berast 28. desember. Stefnt er á að bólusetning hefjist 29. desember.
Fimm þúsund manns verða líklega bólusettir á spítölum og hjúkrunarheimilum viða um land á einum til tveimur dögum í næstuviku. Bóluefninu verður skipt á milli heilbrigðisstarfsfólks og íbúa á hjúkrunarheimilum í fyrstu forgangshópum.
Þórólfur segir að töluverður fjöldi fólks hafi óskað eftir því að komast í forgangshóp. Hann segir að starfsmenn mikilvægra fyrirtækja séu ekki í forgangshópi.
„Það auðvitað vilja allir fá þetta bóluefni sem fyrst og í raun og veru er öll starfsemi og öll fyrirtæki mikilvæg, við gegnum öll mikilvægu hlutverki í þessu þjóðfélagi. Menn eru að reyna að koma sér framar í röðina og ég skil það bara fullkomlega,“ segir Þórólfur.
Hann segir að hann hafi fengið fjölmargar fyrirspurnir um slíkt.
„Já, alveg helling,“ segir Þórólfur.