Svona lýsir björgunarsveitarmaðurinn Davíð Kristinsson aurskriðunni sem féll síðdegis á föstudag. Hann var því bersýnilega staddur nærri skriðunni þegar hún féll og þurfti að hlaupa af stað til þess að bjarga félaga úr bílnum.
Davíð ræddi við fréttamann okkar á Seyðisfirði í dag.
„Ég sé björgunarsveitarbílinn þannig ég stekk inn á skriðuna og næ að komast að björgunarsveitarbílnum – næ að opna hurðina á honum og ná manninum út,“ segir Davíð.
„Við náum að synda út úr skriðunni saman.“
Þurfti að tryggja að fólk færi rétta leið
Að sögn Davíðs tók við mikill ótti, enda ljóst að gífurlegt tjón hafði orðið vegna skriðunnar. Fjölmörg hús skemmdust og tók skriðan nokkur með sér nokkra metra.
Það hafi því verið fyrsta verk að rýma svæðið og ná yfirsýn yfir aðstæðurnar svo hægt væri að stýra fólki út af svæðinu á öruggan máta. Það skipti sköpum að fólk færi rétta leið.
„Það skapaðist náttúrulega ótti og ég er ótrúlega þakklátur fyrir það hversu margir nenntu að taka mark á mér og hlustuðu á þau skilaboð sem ég gaf. Það var ótrúlega mikið af öflugu fólki þarna sem var hægt að gefa skilaboð.“
Hann segir mikið af öflugu fólki hafa lagst á eitt.
„Það má ekki misskiljast að ég hafi gert eitthvað meira en næsti maður, þetta er bara mitt upplivelsi og svona upplifði ég þetta.“

Stórt verkefni fram undan
Davíð segir næstu daga líta þokkalega út. Það sé farið að kólna aðeins í veðri og engin ástæða til annars en að líta björtum augum á framhaldið.
„Þeir líta bara vel út. Það er farið að snjóa aðeins sýnist mér, þá eru jólin að koma. Þetta lítur allt vel út.“
Nú hefur rýmingu verið aflétt fyrir hluta Seyðisfjarðar og því ljóst að einhverjir fá að snúa aftur heim. Enn er hætta á skriðuföllum á öðrum svæðum og verður rýming áfram í gildi þar. Viðbúnaður hefur verið færður af neyðarstigi niður á hættustig.
Stórt verkefni sé fram undan en öflugur mannskapur er á svæðinu, sem Davíð segir hjálpa gífurlega.
„Næstu verkefni eru líklega að reyna að koma fólki inn í bæinn að ná í sína hluti og taka stöðuna.“