„Rekstraraðilar virtust vera búnir að ná tökum á þeim reglum sem nú eru í gildi. Flestir veitingastaðanna voru í 3-4 sótthólfum og starfsmenn lögðu sig fram við að framfylgja reglum um sóttvarnir,“ segir í dagbók lögreglu.
Sá staður sem var rýmdur var með of marga gesti, en lögregla hafði afskipti af honum á ellefta tímanum í gær. Þá hafði lögreglu borist tilkynning um brot á sóttvarnalögum á veitingahúsi í miðbænum. Skömmu fyrir klukkan ellefu mætti lögregla á vettvang og voru þá þrettán inni.
Að sögn lögreglu var mikil ölvun hjá gestum. Nokkrir voru með leiðindi við lögreglumenn, en staðurinn var rýmdur og skýrsla rituð um brotið.
Þá fengu nokkrir staðir ábendingar um það sem betur mátti fara og voru til að mynda tveir starfsmenn í eldhúsi minntir á rétta grímunotkun. Öðrum stað var gert að setja upp betri merkingar um salerni.