Innlent

Hóf­­lega bjart­­sýnn og hvetur fólk til að slaka ekki á verðinum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Rögnvaldur Ólafsson, aðstöðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að nýjustu tölur um Covid-smit hér á landi gefi tilefni til hóflegrar bjartsýni. Fjórir greindust með kórónuveiruna hér á landi í gær og voru þeir allir í sóttkví.

„Bæði það að það séu ekki margir sem eru að mælast og svo að allir séu í sóttkví. Á sama tíma vitum við það að það eru mun færri sem mæta í sýnatöku um helgar,“ segir Rögnvaldur í samtali við fréttastofu.

Rögnvaldur segir þó að getan til sýnatöku um helgar sé sú sama og á virkum dögum. Fólk ætti því ekki að veigra sér við að mæta í sýnatöku um helgar, ef það telur sig þurfa þess.

Hann segir það sérstaklega góðar fréttir að allir sem greindust í gær hafi verið í sóttkví.

„Því hærra hlutfall sem er í sóttkví, því betra. Það er vísbending um það að við séum farin að ná betur utan um þetta og séum búin að finna þá sem eru veikir. En eins og ég segi, ég er mjög hóflega bjartsýnn,“ segir Rögnvaldur.

Hvetur fólk til að halda út

Hann segir þá uppi áhyggjur af því að fólk sé tekið að slaka á sóttvörnum, nú þegar jákvæðar fréttir af framgangi bóluefnis við kórónuveirunni berast.

„Við erum hrædd um það að fólk sé orðið svona fullbjartsýnt, bæði þegar farið er að hilla undir bóluefni og þegar það sér lækkandi tölur og við hvetjum fólk til að slaka ekki á verðinum. Það er enn þá smit þarna úti og það væri fátt leiðinlegra en að fara að veikjast þegar farið er að hilla undir bóluefni. Ég tala nú ekki um að vera veikur í einangrun eða í sóttkví um jólin,“ segir Rögnvaldur, sem hvetur fólk til að halda ástandið út, nú þegar bóluefni virðist í sjónmáli.

„Gerum þetta saman, aðeins lengur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×