Sumir komast fljótt yfir sambandsslit og halda áfram með líf sitt. Kynnast nýju fólki, fara í ný sambönd og finna aftur ástina. Aðrir eiga erfiðara með að halda áfram og sætta sig við það að hafa manneskjuna, sem þeir elska ennþá, ekki í lífinu sínu.
Svo eru það enn aðrir sem vilja leita aftur í gamla sambandið vegna þess að þeir þrá það að vera í sambandi, sambandi sem þeir þekkja. Þrá það að finna aftur fyrir ástinni sem einu sinni var. Upplifa aftur það góða sem einu sinni var.
Það eru margar spurningar sem kvikna hjá fólki þegar það finnur fyrir söknuði til fyrrverandi maka. Átti sambandið kannski eitthvað inni? Var þetta hin eina sanna ást? Er eitthvað breytt?
Þegar þú missir einhvern frá þér sem þú elskar og hefur verið stór hluti af lífi þínu er eðlilegt að sakna. þegar eitthvað endar, sem einhvern tíma hefur verið gott, er eðlilegt að finna fyrir sorg.
En hvað svo? Hvenær vitum við hvort að það lifi enn í gömlum glæðum?
Út frá þessum hugleiðingum kemur Spurning vikunnar.
Sérðu eftir fyrrverandi maka?