Innlent

Holtavörðuheiði lokað og ekkert lát á hvassviðrinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar sem tekin er á Holtavörðuheiði klukkan 20:50 í kvöld. Heiðinni var lokað á áttunda tímanum.
Mynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar sem tekin er á Holtavörðuheiði klukkan 20:50 í kvöld. Heiðinni var lokað á áttunda tímanum. SKjáskot/vegagerðin

Holtavörðuheiði var lokað á áttunda tímanum í kvöld eftir að bílar festust þar á veginum. Vegagerðin bendir á hjáleið um Laxárdalsheiði, Skógarströnd og Heydal. Vetrarfærð er á landinu öllu og bálhvasst en ekki er útlit fyrir að lægi svo um munar fyrr en á föstudag.

Flughálka er á Örlygshafnarvegi, Dynjandisheiði, á Strandavegi sem og á nokkrum öðrum fáfarnari leiðum. Snjóþekja er á Hálfdán og á Bjarnafjarðarhálsi en krapi á Kleifaheiði og á Þröskuldum annars víðast hvar hálka eða hálkublettir.

Þegar var tekið að hvessa talsvert á Suðvesturlandi, Suðurlandi, Suðausturlandi og á Tröllaskaga um sexleytið í dag. Gular stormviðvaranir eru í gildi fram eftir kvöldi en Veðurstofa varar við suðvestan hvassviðri eða stormi með skúrum eða slydduéljum sunnan- og vestantil í dag.

„Norðan rok úti fyrir Norðurlandi á morgun og fimmtudag. Há sjávarstaða, ölduhæð og áhlaðandi getur skapað mikinn ágang við ströndina sunnan- og suðvestanlands í dag, en á Norðurlandi á morgun og fimmtudag.

Útlit fyrir norðan hvassviðri eða storm á morgun með snjókomu á norðurhelmingi landsins og jafnvel stórhríð á köflum norðanlands. Kólnar í veðri. Svipuð norðanátt áfram á fimmtudag og lægir ekki svo um munar fyrr en eftir hádegi á föstudag,“ segir í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Mjög hvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum í kvöld, hvar björgunarsveitir hafa verið kallaðar út vegna lausamuna, þakklæðninga og jólaskrauts sem hefur fokið í hvassviðrinu.


Tengdar fréttir

Gular viðvaranir ná nú yfir nær allt landið

Gul veðurviðvörun er nú í gildi fyrir nær allt landið frá klukkan 18 á morgun til hádegis á fimmtudag. Norðan hvassviðri eða stormur tekur við suðvestan stormi sem nú lemur stóran hluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×