Guðmundur Þórarinsson hóf leik á varamannabekknum þegar lið hans, New York City, mætti Orlando City í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í bandarísku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Jafntefli varð niðurstaðan úr 90 mínútna leik og því þurfti að framlengja.
Guðmundi var skipt inná á 115.mínútu en ekki tókst að útkljá um úrslitin í framlengingunni og vítakeppni því niðurstaðan.
Þar vann Orlando City eftir bráðabana en Guðmundur fór á vítapunktinn og lét verja frá sér úr sjöundu vítaspyrnu New York liðsins. Áður hafði Portúgalinn Nani klikkað á vítapunktinum fyrir Orlando.
Vítaspyrnukeppnin var ótrúleg í ljósi þess að Pedro Gallese, markvörður Orlando, fékk að líta rauða spjaldið í vítakeppninni fyrir að mótmæla VAR ákvörðun og því fór Rodri Schlager, sem leikur vanalega stöðu miðvarðar, í markið og reyndist hetja liðsins.
Nani og félagar engu að síður komnir áfram í næstu umferð en Guðmundur og félagar sitja eftir með sárt ennið. Hér fyrir neðan má sjá vítaspyrnu Guðmundar.
Long live @RodriSchlegel pic.twitter.com/ymaQyJzpop
— Orlando City SC (@OrlandoCitySC) November 21, 2020