Spegillinn hafnar því algerlega að í pistli sem birtur var á mánudaginn síðastliðinn um efni í skýrslu GRECO samtakanna um íslenska stjórnsýslu hafi fréttamaður Spegilsins ekki greint rétt frá efninu. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Fram kemur í frétt RÚV að Spegillinn standi við efni pistilsins. Fréttamaðurinn sem hann hafi flutt hafi ekki lýst yfir pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir. Þá segir að orð ráðherra um að fréttamaðurinn hafi ekki greint rétt frá séu tilhæfulaus.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra gagnrýndi fréttaflutning fréttamanns RÚV um hvernig íslensk stjórnvöld hafi brugðist við tilmælum GRECO ætluðum til að draga úr spillingu. Áslaug Arna skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun þess efnis þar sem hún sagði fréttamanninn hafa kosið að „afflytja málið og lýsa pólitískri afstöðu án tengsla við staðreyndir.“