Nokkrar breytingar verða á leikmannahópi íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu fyrir síðasta leik ársins og síðasta leikinn undir stjórn Erik Hamrén sem er Þjóðadeildarleikur gegn Englandi á Wembley á miðvikudag.
Aron Einar Gunnarsson, Alfreð Finnbogason, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson og Viðar Örn Kjartansson verða ekki með liðinu gegn Englandi og hafa yfirgefið íslenska hópinn.
Nokkrar breytingar verða á leikmannahópi A landsliðs karla fyrir síðasta leik ársins, Þjóðadeildarleik gegn Englandi á Wembley á miðvikudag. https://t.co/vyUcMJIczy
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) November 16, 2020
Inn í íslenska hópinn koma í staðinn þeir Alfons Sampsted, Jón Dagur Þorsteinsson, Andri Fannar Baldursson, Sveinn Aron Guðjohnsen og Ísak Bergmann Jóhannesson, sem allir voru í leikmannahópnum hjá U21 landsliðinu sem lék tvo leiki í undankeppni EM á dögunum.
Hörður Björgvin Magnússon tekur út leikbann gegn Englandi, þar sem hann fékk sína aðra áminningu í Þjóðadeildinni í leiknum gegn Dönum.
Leikurinn fer fram sem fyrr segir á Wembley-leikvanginum í Lundúnum á miðvikudag, hefst kl. 19.45 að íslenskum tíma og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Aron Einar Gunnarsson, Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson misstu allir líka af fyrri leiknum á móti Englendingum á Laugardalsvellinum í september síðastliðnum og síðasti leikur þeirra á móti Englandi er því áfram leikurinn í Nice í júnílok 2016 þegar Ísland sló enska landsliðið út úr sextán liða úrslitunum á EM.
Alfreð Finnbogason missti líka af fyrri leiknum við England í september og hefur aldrei mætt Englandi í landsleik því hann sat allan tímann á bekknum i leiknum fræga í Nice.