Markaskorari Íslands var súr eftir tapið gegn Dönum en Viðar Örn Kjartansson var á því að Ísland hefði átt allavega stig skilið úr leik kvöldsins sem tapaðist 2-1.
Viðtal Antons Inga Leifssonar við Viðar Örn má sjá í spilaranum hér að ofan.
„Í fyrri hálfleik voru þeir betri en við vorum samt ekkert slakir fannst mér. Í seinni hálfleik fannst mér við vera með yfirhöndina og jafnvel bara eiga að vinna leikinn eftir að við jöfnum. Þeir refsa ef þú gerir ein mistök, það er bara þannig. Í heildina var þetta samt bara frábær seinni hálfleikur,“ sagði Viðar Örn um leik kvöldsins.
„Þeir bara sögðu mér að berjast, vera líflegur og reyna jafna metin,“ sagði Viðar Örn um skilaboðin sem hann fékk frá þjálfarateyminu áður en hann kom inn á.
„Þegar maður kemur inn sem varamaður er ekkert alltaf víst að maður skori. Hjálpaði mér að ég fékk frábæran bolta frá Ara Frey, ég hefði viljað fá jafntefli í dag en við vorum að pressa þá vel undir lokin,“ sagði Viðar Örn að lokum.