Mögulegur leikstaður leiks Englands og Íslands í Þjóðadeildinni í knattspyrnu breytist með hverri mínútunni. Nú hefur Albanía verið nefnd sem möguleiki en fyrr í dag var talað um að leikurinn gæti farið fram í Grikklandi eða að enska liðið þyrfti einfaldlega að gefa leikinn og tapa honum þar með 3-0.
Vegna kórónuveirusmita í minkum í Danmörku hafa verið settar nýjar sóttvarnareglur í Bretlandi. Komi fólk frá Danmörku þarf fólk að fara í sóttkví. Verða engar undanþágur gerðar.
Ed Aarons hjá The Guardian segir að enska knattspyrnusambandið hafi fundað með ríkisstjórn Bretlands í nær allan dag. Ljóst er að leikurinn mun að öllum líkindum ekki fara fram á Wembley í Lundúnum þar sem íslenska landsliðið mætir Danmörku þremur dögum fyrir leik Englands og Íslands.
England v Iceland could be played in Albania if Covid rules out Wembley https://t.co/o3WDHOR3DG
— The Guardian (@guardian) November 9, 2020
Í ágúst tilkynnti UEFA að Pólland, Ungverjaland, Grikkland og Kýpur hefðu öll boðist til að halda leiki sem ekki gætu farið fram í öðrum löndum vegna kórónuveirunnar. Nú hefur smitum í áðurnefndum löndum fjölgað til muna og koma þau því í raun ekki lengur til greina.
Því hefur Albanía verði nefnd til sögunnar sem mögulegur leikstaður fyrir leik Englands og Íslands.
Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi hafa sagt að engar undanþágur verði gerðar á sóttkví ef fólk kemur frá Danmörku. Þetta setur ýmis lið ensku úrvalsdeildarinnar í erfiða stöðu en nokkrir af lykilmönnum danska liðsins leika í Englandi. Þar má helst nefna Kasper Schmeichel sem leikur með Leicester City og Pierre-Emile Højbjerg sem leikur með Tottenham Hotspur.
Þá var greint frá því fyrr í dag að leikmenn enska landsliðsins þyrftu einnig að fara í sóttkví við heimkomuna þar sem þeir hefðu komist í kynni við fólk sem hefði verið í Danmörku.
Ísland mætir Ungverjalandi í leik um sæti á EM næsta sumar á fimmtudaginn kemur. Í kjölfarið fylgja svo tveir leikir í Þjóðadeildinni. Fyrst gegn Danmörku og svo gegn Englandi. Hvort síðasti leikurinn muni fara fram verður að koma í ljós.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.