Fyrirhugaður leikur Englands og Íslands í Þjóðadeild Evrópu er sagður í uppnámi vegna ferðabanns sem bresk yfirvöld hafa sett vegna kórónuveirufaraldursins.
Frá þessu er greint á vef BBC í dag.
Í kjölfar stökkbreytingar á kórónuveirunni sem greindist í minkum í Danmörku hefur verið sett ferðabann á alla ferðamenn frá Danmörku til Bretlands.
Íslenska landsliðið mætir Dönum í Kaupmannahöfn þann 15.nóvember næstkomandi og á svo að ferðast þaðan til Lundúna og leika gegn Englendingum á Wembley þann 18.nóvember.
England's Nations League match against Iceland is in doubt because of the UK government's new travel ban on non-UK visitors coming from Denmark.
— BBC Sport (@BBCSport) November 8, 2020
https://t.co/M4ZLpDxnpw pic.twitter.com/M1Wq1GtoQi
Í reglugerð breskra yfirvalda segir að engar undanþágur verði veittar frá ferðabanninu en í frétt BBC segir að enska knattspyrnusambandið bíði frekari útskýringa frá stjórnvöldum. Ekki kemur til greina að fresta leiknum en um er að ræða lokaleik Íslands í Þjóðadeildinni.
Talið er að þessar fréttir muni einnig hafa áhrif á danska landsliðsmenn sem leika í ensku úrvalsdeildinni og er talið næsta víst að ensk úrvalsdeildarfélög muni ekki hleypa sínum dönsku landsliðsmönnum til Danmerkur þar sem þeir þurfi að fara í 14 daga einangrun við komuna til baka til Englands.