Það voru engir áhorfendur í stúkunni á síðasta leik hollenska liðsins Heerenveen en stúkan á heimavelli liðsins var þó langt frá því að vera tóm.
Gamla Íslendingaliðið Heerenveen í Hollandi nýtti áhorfendabannið í Hollandi til góðra verka á dögunum. Heerenveen ákvað að safna fyrir krabbameinsveik börn en gera það á nýstárlegan hátt.
Heerenveen mætti FC Emmen í hollensku deildinni á föstudaginn og áhorfendur voru bannaðir vegna sóttvarnarreglna í landinu en líkt og annars staðar í Evrópu þá eru Hollendingar að berjast við aðra bylgju í kórónuveirufaraldrinum.
Forráðamenn Heerenveen vildu ekki hafa stúkuna tóma og fundu leið til að bæta úr því og styrkja um leiðinni gott málefni.
Dutch club Heerenveen filled their stadium with 15,000 teddy bears on Saturday. Each bear represented a child affected by cancer in the country.
— ESPN FC (@ESPNFC) October 26, 2020
They were all sold within 24 hours, raising over 230,000 for local children's charities pic.twitter.com/dI8qLLv31Y
Heerenveen fór í samstarf við KiKa og lyfjafyrirtækið MSD en þau kvöttu stuðningsmenn hollenska liðsins til að kaupa lítinn bangsa og um leið vekja athygli á stöðu barna með krabbamein í Hollandi.
Stuðningsmenn Heerenveen létu sitt ekki eftir liggja heldur keyptu upp alla fimmtán þúsund bangsana sem voru í boði og það á fyrsta sólarhringnum eftir þeir fóru í sölu.
Samtals safnaði meira en 230 þúsund evrur, 38 milljónir í íslenskum krónum, sem munu fara í þetta mikilvæga og þarfa málefni.
Allir þessir fimmtán þúsund bangsar voru síðan klæddir í búning Heerenveen og var síðan stillt upp út um alla stúku á mjög myndrænan hátt.
Þetta hafði líka góð áhrif á leikmenn Heerenveen sem unnu leikinn sannfærandi 4-0. Hér fyrir neðan má sjá sviðmyndir frá leiknum.