„Leikstjórinn Óli Finnsson hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í að semja „feel-good“ þemalag fyrir þætti sem hann var að gera með mæðginunum Björgvini Franz og Eddu Björgvins,“ segir tónlistarkonan Una Stefánsdóttir um lagið Með þér sem kom út í dag. Lagið er þemalag þáttanna Ísbíltúr með mömmu en fyrsti þáttur mæðginanna Eddu Björgvins og Björgvin Franz Gíslasonar fer í loftið í kvöld.
„Mér hefur aldrei fundist hugtakið „feel-good“ passa jafn vel við neina eins og þau tvö enda algerir ljósberar og gleðigjafar. Í þáttunum eru þau á rúntinum á gömlum fjölskyldubíl að rifja upp alls konar sögur og lenda í stórkostlegum ævintýrum,“ segir Una.
„Textann vann ég út frá konsepti þáttarins en grúvið sjálft var 100 prósent inspírerað af því hvernig ég held að það sé að vera í matarboði með Björgvini og Eddu. Mér fannst svo einstaklega viðeigandi að fá hæfileikaríku vini mína í Babies flokknum til að vinna lagið með mér því enginn er betri í „feel-good“ en þeir. Þeir komu stemningunni í nýjar hæðir og við erum virkilega ánægð með útkomuna. Við viljum allavega meina að þetta sé fullkomið lag til að rúnta við.
Fyrsti þáttur af Ísbíltúr með mömmu verður í kvöld á Stöð 2, kl. 19:10 en lagið Með þér má heyra í spilaranum hér fyrir neðan.
Textinn við lagið með þér:
Manstu þegar sjónvarpið tók sér fimmtudagsfrí?
Eða þegar Ringo spilaði í Atlavík?
Vigdís vakti yfir okkur sterk
og farsímaleysið var yndislegt. Túberuð á rúntinum við söfnuðum minningum
Með þér er lífið yndislegt
Með þér er lífið stórkostlegt
Kannski verða flugbílar á Hvammstanga
Eflaust verðum við heimsmeistarar í fótbolta
Ég veit þú verður ennþá hér hjá mér
því ást okkar er jú órjúfanleg
Hring eftir hring við búum til nýjar minningar
Með þér…