Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn viðurkenndi að hafa gert mistök þegar Erik Hamrén og Frey Alexanderssyni, þjálfurum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, var leyft að vera á Laugardalsvelli í gær þrátt fyrir að vera í sóttkví.
Sem kunnugt er þurfti allt starfslið íslenska liðsins að fara í sóttkví eftir að Þorgrímur Þráinsson greindist með kórónuveiruna.
Hamrén og Freyr fengu hins vegar leyfi til að vera á leiknum gegn Belgíu í Þjóðadeildinni í gær, í glerbúri á Laugardalsvelli. Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson stýrðu íslenska liðinu af hliðarlínunni og voru í sambandi við Hamrén og Frey.
Á upplýsingafundi almannavarna í dag viðurkenndi Víðir að ekki hefði átt að veita landsliðsþjálfurunum undanþágu til að vera á leiknum.
„Við höfum margoft talað um það að við komumst aldrei í gegnum þennan faraldur án þess að gera mistök. Ég gerði mistök varðandi undanþágur sem veittar voru þjálfurum íslenska karlalandsliðsins í gær. Þeir voru í sóttkví og ég taldi að það umhverfi sem allir starfsmenn landsliðsins væru í og við köllum vinnusóttkví væri nægjanlegt til að þetta væri heimilt. Sóttvarnalæknir hefur bent mér á í morgun að þetta sé ekki rétt og þeir hefðu ekki átt að fá þetta leyfi,“ sagði Víðir á upplýsingafundinum í dag. Hann bætti við að mistökin væru bagaleg í ljósi tengingar hans við KSÍ en hann starfaði áður sem öryggisstjóri sambandsins.
„Fjölmargir á Íslandi eru í sóttkví sem ekki hafa neina heimild til að vera á ferðinni og þetta var afskaplega slæmt fordæmi. Ég tek á mig alla ábyrgð í þessu máli og þetta er sérstaklega slæmt fyrir mig vegna minnar fyrri tengingar við íþróttastarfið.“
Ísland tapaði leiknum gegn Belgíu, 1-2, og féll þar með úr A-deild Þjóðadeildarinnar. Þetta var síðasti heimaleikur Íslendinga á þessu ári en framundan eru þrír útileikir í næsta mánuði, m.a. gegn Ungverjum um sæti á EM á næsta ári.