Ófarir Harrys Maguire héldu áfram í gær þegar hann var rekinn af velli eftir 31 mínútu í leik Englands og Danmerkur í Þjóðadeildinni. Fjórum mínútum eftir að Maguire fékk rauða spjaldið skoraði Christian Eriksen eina mark leiksins úr vítaspyrnu.
Maguire hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu, eða frá því hann var handtekinn í sumarfríi sínu í Grikklandi. Allt hefur gengið á afturfótunum hjá honum innan vallar og meira að segja harðhausinn Roy Keane kennir í brjósti um hann.
„Ég finn til með Maguire. Hann er ekki í réttu hugarástandi. Þegar þú sérð rauða spjaldið fara á loft finnurðu til með honum,“ sagði Keane á iTV í gær.
Eftir leikinn á Wembley lýsti Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, yfir fullum stuðningi við Maguire. Keane segir að Southgate hefði átt að bregðast öðruvísi við þegar Maguire var rekinn af velli.
„Gareth sagði að Maguire hefði hans stuðning en í svona stöðu, þegar hann veit að Maguire hefur átt erfitt innan vallar sem utan, hefði klapp á bakið hjálpað,“ sagði Keane.