Tap gegn Belgíu á miðvikudag gæti sent Ísland niður úr deild þeirra bestu í Þjóðadeildinni í fótbolta. Fleira er í húfi í leiknum, gegn besta landsliði heims.
Ísland hefur frá stofnun Þjóðadeildarinnar leikið í efstu deild, A-deild. Það er vegna þess hve góðum árangri liðið hafði náð síðustu árin fram að því að keppninni var hleypt af stokkunum haustið 2018.
Í slagnum við sum af allra bestu liðum heims hefur uppskeran í Þjóðadeildinni verið rýr, núll stig í sjö leikjum.
Ísland virtist fallið úr A-deild eftir fyrstu keppnina í Þjóðadeildinni, eftir töpin gegn Sviss og Belgíu, en UEFA ákvað að stækka A-deildina úr 12 liðum í 16 lið og því hélt Ísland sæti sínu.
Í keppninni í ár hefur Ísland tapað fyrri þremur leikjum sínum af sex. Ef Ísland tapar gegn Belgíu á miðvikudag, og Danmörk vinnur England, er ljóst að Ísland endar neðst í 2. riðli og fellur (nema auðvitað að A-deild verði enn stækkuð, sem er afskaplega ólíklegt).
Danmörk er með 4 stig og það virðist helst von til þess að Ísland geti haldið sæti sínu í keppninni á kostnað Dana, þó það sé orðið mjög ólíklegt eftir 3-0 tapið gegn þeim í gær.
Keppnin í ár hjálpar Íslandi ekki á HM
Það er svo ekki með öllu ljóst hvaða máli það skiptir að vera í B-deild í stað A-deildar í næstu Þjóðadeild, sem fram fer frá júní til september 2022 vegna þess að HM er undir lok þess árs.
Ísland fengi vissulega viðráðanlegri andstæðinga í B-deild, sem einhverjir gætu talið kost. Ísland gæti hins vegar ekki orðið Þjóðadeildarmeistari, það geta aðeins lið í A-deild.
Stór kostur við að vera í A-deild í síðustu Þjóðadeild er að það tryggði Íslandi sæti í EM-umspilinu sem nú er í gangi. Hins vegar er óvíst að sama fyrirkomulag verði varðandi undankeppni EM 2024.

Það er ljóst að betra hefði verið fyrir Ísland að vera í B-deild Þjóðadeildar í ár, upp á að komast á HM 2022. Í gegnum Þjóðadeildina núna fást nefnilega tvö sæti í HM-umspili, fyrir tvö lið sem vinna sinn riðil í Þjóðadeildinni (en komast ekki á HM eða í umspilið í gegnum undankeppnina á næsta ári).
Hver sigur telur á heimslista
Fleira en vera í A-deild er í húfi í þeim þremur leikjum sem eftir eru í Þjóðadeildinni hjá Íslandi. Hver leikur skiptir máli upp á röðun á heimslista FIFA. Staðan þar í nóvember ræður því í hvaða styrkleikaflokki Ísland verður þegar dregið verður í undankeppni HM 2022.
Ísland er, eftir sigurinn gegn Rúmeníu og tapið gegn Danmörku, í 23. sæti af Evrópuþjóðum á heimslista FIFA. Ísland þarf því aðeins að fara upp um þrjú sæti til að komast í 2. styrkleikaflokk og losna þar með við sterkan mótherja í undankeppni HM á næsta ári.