Lífið

Akureyringar gantast með veðursældina fyrir norðan með skrautlegum myndum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Friðrik Ómar er stofnandi síðunnar. 
Friðrik Ómar er stofnandi síðunnar.  facebook/Geggjað veður á Akureyri

„Kveikjan af þessu er þegar bæjarstjórinn okkar á Akureyri er í viðtali í vikunni og segir að við Akureyringar séum svo mikið reglufólk. Það voru einhverjir sem stukku upp á nef sér en mér fannst þetta svo brjálæðislega fyndið,“ segir stórsöngvarinn Friðrik Ómar í viðtali við Ívar Guðmundsson á Bylgjunni í morgun.

Friðrik stofnaði Facebook-hópinn Geggjað veður á Akureyri fyrir tveimur dögum en síðan er ætluð ljósmyndum og frásögnum af geggjuðu veðri á Akureyri. Þegar þessi grein er skrifuð eru 1500 manns meðlimir í hópnum.

„Geggjað veður getur verið að sumri jafnt sem vetri. Engu að síður er það geggjað. Það má vera fólk á myndinni. Þeir sem birta myndir eða frásagnir þar sem öðruvísi veður á við eða af öðrum landshlutum verður vísað úr hópnum og eiga ekki afturkvæmt,“ stendur í lýsingu síðunnar.

„Ég fór að hugsa að maður verður að fagna því sem við höfum og landsmenn vita alveg að það er alltaf geggjað veður á Akureyri. Við erum reglufólk og það er alltaf geggjað veður hjá okkur. Þetta er svona sjálfbjargarviðleitni litla mannsins út á landi og maður verður bara að búa eitthvað til.“

Mikill húmor er inni á síðunni og fólk liggur hreinlega úr hlátri segir Friðrik. Líklega eru ekki allar myndirnar teknar á Akureyri eins og sjá má hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×