Íslenska CrossFit stjarnan Sara Sigmundsdóttir gerði upp heimsleikana í þremur færslum á Instagram síðu sinni í gærkvöldi. Hún sagði þar frá því sem hefur verið að angra hana síðustu mánuði.
Sara var langt frá sínu besta á heimsleikunum og endaði í 21. sæti en fimm efstu konurnar tryggðu sér sæti í úrslitunum um heimsmeistaratitilinn. Þaer bjuggust flestir við að sjá Söru en hún var aldrei með í baráttunni um þau sæti.
„Við sem erum að elta CrossFit drauminn erum öll að glíma við særindi, eymsli, stífleika og bólgur. Það er allt hluti af því að vera íþróttamaður og ýta sjálfum sér eins langt og þú kemst. Við skrifuðum upp á þetta og það er síðan undir okkur og okkar teymi komið að dæma um það hvort við séum í ástandi til að keppa eða ekki,“ hóf Sara Sigmundsdóttir fyrstu færslu sína.
„Af þeim sökum ætla ég ekki að koma með neinar afsakanir vegna frammistöðu minnar á heimsleikunum en ég viðurkenni það að ég stóðst ekki þær kröfur sem ég set sjálfri mér. Ég gerði ekki nóg og það er mér að kenna. Þær sem komust í fimm manna úrslitin unnu fyrir því og ég get ekki beðið eftir því að sjá þær keppa eftir tvær vikur,“ skrifaði Sara.
Sara sagði síðan frá því sem enginn vissu um en marga grunaði þegar þeir sáu hana keppa á heimsleikunum á dögunum. Hún var ekki lík sjálfri sér og það var ástæða fyrir því.
„Ég hef verið að glíma við afleiðingar þess að hafa á dottið klaufalega í kassahoppi í maí þar sem ég fékk stóran skurð framan á legginn og þurfti að fá tólf sauma,“ skrifaði Sara í færslu númer tvö.
„Þetta var aðeins nokkrum vikum fyrir Rogue Invitational mótið og ég var í kapphlaupi við tímann. Ég leyfði sárinu því ekki að fá allan þann tíma sem það þurfti til að gróa, skrifaði Sara og hélt áfram:
„Eftir að sárið lokaðist þá fékk ég sýkingu í það. Bólgan jókst síðan hratt og eftir nokkra klukkutíma leit út fyrir að ég væri með annað hné á miðjum leggnum,“ skrifaði Sara og birti mynd af bólgunni.
„Aftur þurfti ég að bruna upp á spítala þar sem ég fór í litla aðgerð og ég fór síðan á sýklalyf. Þegar ég mátti æfa á nýjan leik þá hugsaði ég ekki meira um þetta og tengdi aldrei að þau óþægindi sem ég var að finna fyrir væru eitthvað út af þessu,“ skrifaði Sara.
Það var næringarfræðingurinn hennar Söru sem benti henni síðan á það að hún gæti hafa fengið skort á hormóninu Kortisól vegna sýkingarinnar. Kortisól er eitt af stresshormónunum sem eru lífsnauðsynleg við álag og þegar hætta steðjar að.
„Þegar hann fór yfir einkennin sem fylgja skorti á adrenalíni þá fannst mér hann vera bara að lýsa lífi mínu,“ skrifaði Sara.
Hún segist hafa farið í Kortisól-próf en ekki fyrr en of seint. „Ég fékk niðurstöðuna á síðasta mánudag og þar kom í ljós að ég var með alltof lítið af þessu Kortisól hormóni. Það er léttir að vita loksins hvað var að og hver var ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið ég sjálf síðustu mánuði,“ skrifaði Sara.
Hún horfir svo til framtíðar í þriðju færslunni sinni en hér fyrir ofan og neðan má sjá þessar þrjár færslur Söru sem skýra svo margt.
Átta ára ensk stelpa bræddi hjarta Söru
Svakalegur munur á því hvernig Sara og Tia kláruðu „Djöfulsins Díönu“