„Tilfinningin er mjög góð, gæti ekki verið betri. Við gerðum okkur þetta mjög erfitt í lokin en í svona leik þegar staðan er bara 2-1 er allt undir. En við stóðumst pressuna í lokin sem er mjög gott,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson eftir sigur Íslands á Rúmeníu, 2-1, í umspili um sæti á EM í kvöld.
Gylfi var hetja íslenska liðsins og skoraði mörk þess í fyrri hálfleik, bæði með vinstri fæti.
„Ég held að vinstri löppin sé betri en sú hægri,“ sagði Gylfi léttur. „Það var mjög gott að skora tvö mörk í dag og koma okkur í góða stöðu. Ég hef ekki séð vítið sem þeir fengu en við vorum frekar óheppnir. Það hefði verið þægilegra að ná að stjórna leiknum betur og hafa þetta aðeins þægilegra í lokin.“
Íslendingar voru með góð tök á leiknum þegar Rúmenar fengu vítaspyrnu eftir um klukkutíma leik. Alexandru Maxim skoraði úr vítinu og hleypti spennu í leikinn.
„Mér fannst við stjórna leiknum. Þeir voru kannski aðeins meira með boltann í öftustu línu en okkur leið nokkuð vel með það. Þeir skoruðu úr vítinu og fóru að stjórna leiknum aðeins meira og færðu sig framar. En við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við erum mjög sterkir undir pressu í vörninni. Við náum einhvern veginn alltaf að halda svona stöðu,“ sagði Gylfi.
Eftir mörkin í kvöld vantar Gylfa aðeins tvö mörk til að jafna markamet landsliðsins sem þeir Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári Guðjohnsen eiga í sameiningu.
„Ég var einmitt að hugsa um það áðan. Ég vissi ekki alveg hvað var langt í það en það styttist,“ sagði Gylfi.
Hafnfirðingurinn hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Everton í upphafi tímabils og var því ánægður að fá að spila heilan leik í kvöld.
„Að spila 90 mínútur og aðeins framar en ég hef gert að undanförnu. Þetta var æðislegt, skora tvö mörk og vera komnir í seinni leikinn,“ sagði Gylfi.
En sendi hann Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóra Everton, skilaboð með frammistöðunni í kvöld?
„Það er nóg af landsleikjum í kvöld en vonandi hefur hann séð þetta,“ sagði Gylfi að lokum.