Meira að segja Svíar voru á því að markið sem Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði undir lok fyrri hálfleiks í 1-1 jafntefli Íslands og Svíþjóðar í gær hefði átt að standa.
Þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks skoraði Sara eftir hornspyrnu Hallberu Gísladóttur en Ivana Martincic, dómari leiksins, dæmdi markið af vegna brots Glódísar Perlu Viggósdóttur á Zeciru Musovic, markverði Svía. Umdeildur dómur í meira lagi.
Staðan er 0-1 í hálfleik. Íslenska liðið jafnaði metin á 42. mínútu leiksins en dómari leiksins ákvað á einhvern óskiljanlegan hátt að dæma aukaspyrnu hér!
— Sportið á Vísi (@VisirSport) September 22, 2020
Óskiljanleg ákvörðun pic.twitter.com/NsziNQFJ3r
Daniel Nannskog, sérfræðingur SVT, sagði að mark Söru hefði verið löglegt og Musovic, sem lék sinn fyrsta landsleik í gær, hafi sloppið með skrekkinn.
„Við erum mjög heppin að staðan sé 1-0. Mér finnst þetta ekki nóg til að fá aukaspyrnu. Musovic þarf að vera miklu sterkari og kýla þennan bolta burt,“ sagði Nannskog þegar hann fór yfir atvikið í útsendingu SVT frá leiknum á Laugardalsvelli.
„Ef ég væri Íslendingur væri ég bandbrjálaður því dómarinn tók af þeim algjörlega löglegt mark,“ bætti Nannskog við.
Íslendingar létu ekki þetta mótlæti á sig fá og jöfnuðu eftir klukkutíma með marki Elínar Mettu Jensen. Hún var svo nálægt því tryggja Íslandi sigur á 78. mínútu þegar skot hennar fór í slána á marki Svíþjóðar.
Ísland og Svíþjóð eru bæði með þrettán stig í F-riðli undankeppni EM 2022. Þau mætast öðru sinni í Gautaborg 27. október.