Peter Gerhardsson þjálfari sagði ýmislegt sem sænska liðið hefði getað gert betur í leiknum gegn Íslandi í kvöld en leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Liðin eru jöfn að stigum í tveimur efstu sætum riðilsins.
„Þegar maður er 1-0 yfir þá vill maður auðvitað vinna en mér fannst við geta spilað betur, sérstaklega í seinni hálfleik. Leikurinn varð frekar harður og töluvert af innköstum og boltinn mikið stopp. Við hefðum getað nýtt okkar tækifæri betur.”
„Við þurfum að sjá hvers virði þetta stig verður í lokin. En tilfinningin eftir leik er svolítið bæði og,” sagði Gerhardsson þegar blaðamaður Vísis ræddi við hann að leik loknum í kvöld.
Gerhardsson sagði klárt mál að leikirnir gegn Íslandi væru úrslitaleikir í riðlinum.
„Algjörlega, við gerðum alltaf ráð fyrir að þessi tvö lið myndu berjast um tvö efstu sætin. Við bjóðum íslenska liðið velkomið til Gautaborgar fyrir leikinn þar. Það verður gaman að mæta þeim á nýjan leik, það er gaman að spila leiki þar sem mikið er undir.”
„Við tökum þetta stig með okkur heim og reynum svo bæði að spila betur og taka þrjú stig í leiknum á heimavelli.”