Tuttugu og einn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær og voru flestir ekki í sóttkví. Krám og skemmtistöðum var lokað í dag til að hefta útbreiðslu faraldursins enda hefur fjöldi smitast á þar á síðustu dögum.
Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30 og rætt við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í beinni útsendingu um mögulega þróun faraldursins á næstunni.
Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir manndráp og íkveikju vegna brunans á Bræðraborgarstíg í sumar. Þrennt lést í brunanum sem maðurinn er talinn hafa valdið. Rætt verður við lögmann fjölskyldna þeirra í beinni útsendingu.
Lífeyrissjóðir eiga ekki lengur meirihluta í Icelandair eftir hlutafjárútboð sem lauk í gær. Almennir hluthafar eiga nú helming hlutafjár en Lífeyrissjóður verslunarmanna sem áður var stærsti hluthafinn tók ekki þátt. Fjallað verður ítarlega um hlutafjárútboð Icelandair í kvöldfréttum; rætt við forstjóra félagsins og fjármálaráðherra um horfurnar eftir útboðið.
Einnig verður farið yfir stöðu kvenna sem fengu ranga greiningu hjá Krabbameinsfélaginu, átök innan Vinstri grænna og kíkt í kartöfluþorpið Þykkvabæ. Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.