Fótbolti

Besta byrjun knattspyrnukonu með íslenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni á móti Lettlandi á Laugardalsvellinum í gær.
Sveindís Jane Jónsdóttir á ferðinni á móti Lettlandi á Laugardalsvellinum í gær. Vísir/Vilhelm

Sveindís Jane Jónsdóttir byrjaði A-landsliðsferill sinn frábærlega með því að skora tvö mörk í sínum fyrsta landsleik í 9-0 sigrinum á Lettlandi í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í gær. Hún er sú fyrsta sem nær því í sögu íslenska kvennalandsliðsins.

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði bæði mörkin á fyrstu 32 mínútum sínum með íslenska landsliðinu. Sveindís Jane átti reyndar mögulega á því að skora fleiri mörk í gær en hún var síógnandi og þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum.

Það hafa vissulega landsliðskonur skorað með sinni fyrstu snertingu eins og þær Margrét Lára Viðarsdóttir og Sandra María Jessen og þá tryggði Olga Færseth íslenska landsliðinu mikilvægan 1-0 útisigur í undankeppni EM í sínum fyrsta leik.

Þær Bryndís Einarsdóttir og Ásta Breiðfjörð Gunnlaugsdóttir voru þær fyrstu en þær skoruðu báðar í fyrsta leik íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi.

Af þeim átta sem höfðu opnað markareikninginn sinn í fyrsta A-landsleiknum hafði engum þeirra tekist að skora meira en eitt mark.

Sveindís Jane Jónsdóttir er ein af fimm sem skoruðu í fyrsta leik eftir að hafa verið í byrjunarliðinu.

Þær Bryndís Einarsdóttir, Ásta Breiðfjörð Gunnlaugsdóttir, Olga Færseth og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir gerðu það líka.

Sveindís Jane skoraði sitt fyrsta mark á áttundu mínútu en það gerði Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir einnig. Bryndís, Ásta og Olga skoruðu allar í seinni hálfleik í sínum fyrsta leik.

Rakel Björk Ögmundsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir og Sandra María Jessen skoruðu aftur á móti eftir að hafa komið inn á sem varamenn í fyrsta landsleiknum sínum.

Sandra María var aðeins búin að vera inn á í þrjár mínútur og Margrét Lára skoraði fjórum mínútum eftir að hún kom inn á völlinn. Dóra María skoraði fimm mínútum eftir að hún kom inn á sem varamaður. Rakel kom inn á sem varamaður í fyrri hálfleik en skoraði markið sitt í þeim síðari.

Hér fyrir neðan má sjá hvaða knattspyrnukonur hafa skorað í sínum fyrsta A-landsleik.

  • 1. Bryndís Einarsdóttir - 1981 á móti Skotlandi (2-3 tap)
  • 2. Ásta Breiðfjörð Gunnlaugsdóttir - 1981 á móti Skotlandi (2-3 tap)
  • 3. Olga Færseth - 1994 á móti Hollandi (1-0 sigur)
  • 4. Rakel Björk Ögmundsdóttir - 1999 á móti Úkraínu (2-2 jafntefli)
  • 5. Margrét Lára Viðarsdóttir - 2003 á móti Ungverjalandi (4-1 sigur)
  • 6. Dóra María Lárusdóttir - 2003 á móti Póllandi (10-0 sigur)
  • 7. Sandra María Jessen - 2012 á móti Ungverjalandi (3-0 sigur)
  • 8. Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir - 2016 á móti Póllandi (1-1 jafntefli)
  • 9. Sveindís Jane Jónsdóttir - 2020 á móti Lettlandi (9-0 sigur)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×