Kári Árnason var ósáttur við vítaspyrnuna sem félagi hans í miðri vörn Íslands, Sverrir Ingi Ingason, fékk á sig í 0-1 tapinu fyrir Englandi í Þjóðadeildinni í dag.
Raheem Sterling skoraði sigurmark Englendinga úr vítaspyrnunni. Íslendingar fengu tækifæri til að jafna skömmu síðar en Birkir Bjarnason skaut yfir úr víti.
„Þetta var gríðarlega svekkjandi að tapa á einhverju sem var algjörlega löglegt. Sverrir var með höndina fyrir andlitinu,“ sagði Kári á blaðamannafundi eftir leikinn í dag.
„Boltinn fór vissulega í olnbogann á honum en hann getur ekki fjarlægt hendurnar. Þetta er grátlegt,“ bætti Víkingurinn við.
Kári var fyrirliði íslenska liðsins í dag og lék afar vel í sínum 84. landsleik.