Alls fóru tíu leikir fram í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld. Ungverjaland vann óvæntan sigur á Tyrkjum ytra, þá unnu Færeyjar 3-2 sigur á Möltu. Hér að neðan má finna öll úrslit kvöldsins.
Í riðli 3 í B-deild vann Rússland 3-1 sigur á Serbíu. Staðan var markalaus í hálfleik en Artem Dzyuba kom heimamönnum yfir í upphafi síðari hálfleiks með marki úr vítaspyrnu. Vyacheslav Karavaev tvöfaldaði svo forystuna á 69. mínútu áður en Aleksandar Mitrovic minnkaði muninn tíu mínútum síðar.
Dzyuba var svo aftur á ferðinni áður en leik lauk og lokatölur því 3-1 Rússum í vil.
Í hinum leik riðilsins tryggði Dominik Szoboszlai Ungverjalandi óvæntan sigur gegn Tyrklandi ytra. Lokatölur 1-0 Ungverjum í vil.
Í riðli 1 í D-deild unnu Færeyjar góðan sigur á Möltu. Lokatölur 3-2 en Færeyingar skoruðu tvívegis undir lok leiks til að tryggja sér sigurinn. Klaemint Olsen kom Færeyjum yfir í fyrri hálfleik en Jurgen Degabriele jafnaði metin áður en flautað var til hálfleiks.
Andrei Agius kom Möltu yfir í síðari hálfleik en þeir Andreas Lava Olsen og Brandur Hendriksson – fyrrum leikmaður FH – skoruðu báðir á síðustu þremur mínútum leiksins og lokatölur því 3-2.
Mark Brands var stórglæsilegt en það kom beint úr aukaspyrnu.
Lettland og Andorra gerðu markalaust jafntefli í hinum leik riðilsins.
Önnur úrslit kvöldsins
Búlgaría 1-1 Írland
Finnland 0-1 Wales
Moldóva 1-1 Kósovó
Slóvenía 0-0 Grikkland