Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í fótbolta, sneri aftur út á fótboltavöllinn í gær, sjö mánuðum eftir að hafa fætt tvíbura.
Guðbjörg lék síðast með liði sínu Djurgården í Svíþjóð í maí í fyrra. Hún sneri aftur á völlinn með U19-liði félagsins í gær í 1-1 jafntefli við Brommapojkarna.
Ekki er ljóst hvenær Guðbjörg snýr aftur í markið hjá aðalliði Djurgården en liðið er í 7. sæti af 12 liðum í sænsku úrvalsdeildinni. Næsti leikur liðsins er gegn Rosengård á sunnudaginn og Djurgården fær svo Kopparberg/Gautaborg í heimsókn 13. september.
Íslenska landsliðið á fyrir höndum afar mikilvæga leiki við Lettland og Svíþjóð 17. og 22. september, í undankeppni EM, en spurningin er hvort að þeir leikir séu ekki of snemma fyrir varafyrirliðann.