Fundur í borgarstjórn Reykjavíkurborgar hefst klukkan 14 þar sem í fyrsta sinn verða óundirbúnar fyrirspurnir á dagskrá.
Um tilraunaverkefni er að ræða þar sem liðurinn verður á dagskrá í upphafi sex borgarstjórnarfunda fram til áramóta.
Pawel Bartozek, forseti borgarstjórnar, hefur sagt að litið hafi verið til þingsins, þar sem óundirbúnar fyrirspurnir sé sá dagskrárliður í þinginu sem hafi vakið „smá athygli“. Vonaðist hann til að með þessu verði hægt að fá skörp skoðanaskipti eða þá upplýsingagjöf fyrir fundinn.
Hægt er að fylgjast með fyrirspurnatímanum í spilaranum að neðan.
Á heimasíðu Reykjavíkur má sjá dagskrá fundarins sem hefst nú klukkan 14. Þar segir að allir flokkar í minnihluta muni beina spurningum til Dags B. Eggertssonar, en að meirihlutinn muni í sameiningu beina fyrirspurn til Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðismanna í borginni, um eftirlitsmyndavélar.
- Fyrirspurn til borgarstjóra um samgöngusáttmála – Sjálfstæðisflokkur
- Fyrirspurn til Eyþórs Laxdal Arnalds borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um eftirlitsmyndavélar - Samfylking, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn
- Fyrirspurn til borgarstjóra um biðlista eftir félagslegu húsnæði – Sósíalistaflokkur Íslands
- Fyrirspurn til borgarstjóra um Reykjavíkurflugvöll – Miðflokkur
- Fyrirspurn til borgarstjóra um skólamál og/eða velferðarmál – Flokkur fólksins