Tenet: Aftur á bak og áfram, dasaður og ringlaður Nolan. Heiðar Sumarliðason skrifar 1. september 2020 14:16 Tenet er nú komin í kvikmyndahús. Nýjustu kvikmynd Christophers Nolans, Tenet, er ætlað að bjarga kvikmyndahúsum heimsins sem hafa vegna Covid-19 lent í lokunum. Því er einstaklega viðeigandi að hún fjalli um mann sem á að bjarga heiminum. Því miður hefur hetja myndarinnar ekkert nafn, en gárungarnir hafa bjargað því og nefnt hann John Tenet, ég held mig bara við þá nafngift. Kvikmyndin fjallar um téðan John Tenet, einhverskonar sérsveitarmann (ég átta mig ekki alveg á því fyrir hvern hann starfar), sem er fenginn til að sinna mjög dularfullu og mikilvægu verkefni (ég man ekki hver fékk hann í það, eða hvort það var skýrt). Þar hittir John okkar Tenet dularfulla vísindakonu sem fær hann til að skjóta úr byssu, en þetta er engin venjuleg skotæfing, því skotið fer úr veggnum og inn í byssuna. Ringluð? Þið eigið eftir að vera komin með svima áður en yfir líkur, því ætla ég að sleppa að rekja söguna frekar, nema hvað inn í hana blandast mjöööög hávaxin kona og eiginmaður hennar, sem er svo vondur að Dr. Evil fölnar í samanburði. Mjallhvít og dvergarnir tveir kynna Tenet. „Erum við að koma úr aðgerð, eða fara í aðgerð?“ Það að kalla Tenet ringlandi gerir lítið út mætti hennar í að rugla áhorfendur í ríminu, því samkvæmt mínum heimildum nær hámenntað vísindafólk ekki að ráða fram úr henni (mæli með hlustun á nýjasta þátt Stjörnubíós til að heyra meira af því, en hann er einmitt hægt að spila hér neðst í greininni). Þegar ég gekk út úr bíóinu eftir áhorfið var ég svo ringlaður að mér varð hugsað til Fóstbræðraatriðsins, þar sem Jón Gnarr lék lækni sem var orðinn svo þreyttur og ruglaður að hann vissi ekki hvort hann væri að koma úr eða fara í aðgerð. Christopher Nolan hefur ávallt verið kvikmyndagerðarmaður sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn sínir. Hann gerir almennt ekki kvikmyndir sem falla inn í hið hefðbundna form, heldur leikur hann sér með það. Tími og rúm eru oftast það sem verður fyrir barðinu á formtilraunum Nolans. Hann segir sögur aftur á bak (Memento), sögur sem eru hafnar yfir tíma og rúm (Interstellar) og sögur sem gerast í draumi (Inception). Hér tekur hann saman flestar þessar eindir, slengir þeim í hrærivél, og úr verður einskonar Christopher Nolan greatest hits megamix í kvikmyndaformi. Það er í raun ekkert að því að gera einhverskonar megamix af myndum sínum, vandinn er bara sá að hann sleppir ákveðnum eindum sem kvikmyndir þurfa almennt á að halda. Eindir sem hann passar oftast að séu vel úr garði gerðar. Aðra þessa eind hef ég nú þegar minnst á, þ.e.a.s. skilningur áhorfenda á því sem fyrir augu ber. Annað sem við búumst við í kvikmyndum er samhygð, sem er grunnatriði í hefðbundinni sagnagerð. Það er í góðu lagi að leika sér með samhygð með því að fjalla um persónur sem gera slæma hluti, svokallaðar andhetjur. Það eru tvær kvikmyndir um andhetjur sem ég er mjög hrifinn af sem koma fyrst upp í huga minn: Taxi Driver og Young Adult. Sú fyrrnefnda fjallar um hálf geðveikan fyrrum hermann sem er eltihrellir og morðingi, hin fjallar um konu sem reynir að stela fyrrverandi kærasta sínum frá núverandi eiginkonu sinni, sem nota bene var að eignast sitt fyrsta barn. Þessi aðalpersóna var svo vond að hún reyndi að stela pabba þessa barns frá mömmu þess. Charlize Theron í Young Adult. Tenet gefur áhorfandanum hins vegar ekki einu sinni aðalpersónu sem hægt er að hata, til þess vitum við ekki nægilega mikið um hann John okkar Tenet. Hann hefur enga baksögu, og tilvera hans er tómarúm. Nolan reynir af veikum mætti að skapa einhverskonar tilfinningalega tengingu áhorfandans við John Tenet í gegnum samskipti hans við persónu Elizabeth Debicki, sem leikur fyrrnefnda eiginkonu persónu Kenneths Branaghs (Dr. Evil). Meðul Nolans eru hins vegar allt of veik og óljós. Til þess að áhorfendur geti tengst persónum þurfa þær samhengi og trúverðugleika, bæði skortir Tenet. Gerð er tilraun til að uppfylla þennan skort með því sem í handritaskrifum kallast „save the cat moment.“ Hinum metafóríska ketti er bjargað þegar John Tenet er látinn tína saman sprengjur í upphafi myndar, svo fólk í tónleikasal deyi ekki. Þetta er svo augljóslega atriði sem skrifað er inn í handritið til að reyna að búa til einhverskonar jákvæða tengingu við aðalpersónuna. Það er hins vegar svo einangrað og augljóst, að áhrifin verða aum og tilgerðarleg. Mér var eiginlega hlátur í huga, þetta var svo augljós uppfyllingar „kattarbjörgun.“ Það er í raun ótrúlegt að jafn reyndur kvikmyndagerðarmaður og Nolan skuli gera svona feil. Það er ekki eins og hann skilji ekki gildi þessara einda í kvikmyndaskrifum, hann hefur sannað hæfni sína í að mynda sterka taug við áhorfendur með Interstellar. Svo sýndi hann í tilfelli Inception að hann getur gert flóknar myndir sem láta ekki venjulegu fólki líða eins og það sé að taka háskólakúrs í stærðfræði. Þegar einn af aðalleikurum myndarinnar, Robert Pattison, var nýlega spurður um hvað hún væri, var svar hans: „Hvern andskotann get ég sagt? Ég hef bara ekki hugmynd um það.“ Ef hann veit það ekki, hvernig er hægt að ætlast til að við vitum það? Almennir bíógestir hafa ekki áhuga á að láta rugla svo mikið í sér að þeir viti oftast ekki hvað er í gangi, a.m.k. ekki Sambíógestir, kannski Bíó Paradísargestir, en þetta er hins vegar risa Hollywood-kvikmynd en ekki frönsk framúrstefna (eða, eitthvað álíka). Leonardo DiCaprio betri en enginn Akkilesarhæll Nolans hefur verið að hann stendur sig ekki jafn vel þegar hann er einn á ferð, en hann er einmitt eini skráði höfundur handrits Tenet. Hann var t.d. ekki eini höfundur Interstellar, hana skrifaði hann ásamt bróður sínum, Jonathan Nolan, sem er einnig meðhöfundur að The Dark Knight og nú aðalhöfundur sjónvarpsþáttanna Westworld (ásamt eiginkonu sinni Lisu Joy). Einhverjir gætu þá bent á að Nolan er einn skrifaður fyrir handriti Inception, það er hins vegar ekki jafn einfalt og það virðist. Þar var hann með Leonardo DiCarprio í aðalhlutverki, einn stærsta leikara Hollywood, en fram hefur komið í viðtölum að DiCaprio hafði mikið með handrit myndarinnar að segja og var með svipuna á baki Nolans í ferlinu. Hvað var það sem Leo var mest í mun að bæta? Jú, samhygð og skýrleika. Eða líkt og framleiðandi Inception, Emma Thomas, sagði: „Sú vinna sem Leonardo lagði í karaktersköpun með Chris, gerði myndina að minni þraut og meiri sögu af persónum sem áhorfendur geta tengst.“ Góðir samstarfsmenn eru gulls ígildi. Ó hve Nolan þurfti á einu stykki Leonardo DiCaprio að halda í þetta verkefni með sér. Ég er handviss um að útkoman hefði verið betri. Að sjálfsögðu er Tenet ótrúlega flott kvikmynd, en á maður að hoppa hæð sína yfir því að ein dýrasta mynd sögunnar sé vel gerð, og með flottum hasaratriðum? Á meðan á áhorfinu stóð leið mér eins og ég væri gestur fordekraðs barns milljarðamærings sem væri að sýna mér allt flotta dótið sitt. Það er alltaf sagt að peningar geti ekki fært þér hamingju, en þeir geta ekki heldur fært þér fullnægjandi kvikmynd einir og sér, og Tenet er sannarlega ekki fullnægjandi kvikmynd. Ég vona samt virkilega að sem flestir skelli sér á hana og geri upp hug sinn sjálfir, því þetta er mynd sem kvikmyndaunnendur verða að sjá, hvort sem þeim svo líkar hún eða ekki. Svo þarf auðvitað að halda kvikmyndahúsunum á lífi, því ekki viljum við missa þau. Niðurstaða: Þrjár stjörnur. Þar sem hún á að vera bjargvættur kvikmyndahúsanna langar mig mikið til að geta gefið Tenet fleiri stjörnur, en til þess skortir hana of margar af þeim eindum sem prýða framúrskarandi kvikmyndir. Flott hasaratriði eru til einskis ef manni er nokk sama um persónurnar og samhengi þeirra er ekki merkilegra en raun ber vitni. Hér að neðan er hægt að heyra Heiðar Sumarliðason fara nánar ofan í saumana á Tenet með sviðslistakonunni Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur og ritstjóranum Tómasi Valgeirssyni í hlaðvarpsþættinum Stjörnubíói. Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Króli trúlofaður Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Nýjustu kvikmynd Christophers Nolans, Tenet, er ætlað að bjarga kvikmyndahúsum heimsins sem hafa vegna Covid-19 lent í lokunum. Því er einstaklega viðeigandi að hún fjalli um mann sem á að bjarga heiminum. Því miður hefur hetja myndarinnar ekkert nafn, en gárungarnir hafa bjargað því og nefnt hann John Tenet, ég held mig bara við þá nafngift. Kvikmyndin fjallar um téðan John Tenet, einhverskonar sérsveitarmann (ég átta mig ekki alveg á því fyrir hvern hann starfar), sem er fenginn til að sinna mjög dularfullu og mikilvægu verkefni (ég man ekki hver fékk hann í það, eða hvort það var skýrt). Þar hittir John okkar Tenet dularfulla vísindakonu sem fær hann til að skjóta úr byssu, en þetta er engin venjuleg skotæfing, því skotið fer úr veggnum og inn í byssuna. Ringluð? Þið eigið eftir að vera komin með svima áður en yfir líkur, því ætla ég að sleppa að rekja söguna frekar, nema hvað inn í hana blandast mjöööög hávaxin kona og eiginmaður hennar, sem er svo vondur að Dr. Evil fölnar í samanburði. Mjallhvít og dvergarnir tveir kynna Tenet. „Erum við að koma úr aðgerð, eða fara í aðgerð?“ Það að kalla Tenet ringlandi gerir lítið út mætti hennar í að rugla áhorfendur í ríminu, því samkvæmt mínum heimildum nær hámenntað vísindafólk ekki að ráða fram úr henni (mæli með hlustun á nýjasta þátt Stjörnubíós til að heyra meira af því, en hann er einmitt hægt að spila hér neðst í greininni). Þegar ég gekk út úr bíóinu eftir áhorfið var ég svo ringlaður að mér varð hugsað til Fóstbræðraatriðsins, þar sem Jón Gnarr lék lækni sem var orðinn svo þreyttur og ruglaður að hann vissi ekki hvort hann væri að koma úr eða fara í aðgerð. Christopher Nolan hefur ávallt verið kvikmyndagerðarmaður sem bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn sínir. Hann gerir almennt ekki kvikmyndir sem falla inn í hið hefðbundna form, heldur leikur hann sér með það. Tími og rúm eru oftast það sem verður fyrir barðinu á formtilraunum Nolans. Hann segir sögur aftur á bak (Memento), sögur sem eru hafnar yfir tíma og rúm (Interstellar) og sögur sem gerast í draumi (Inception). Hér tekur hann saman flestar þessar eindir, slengir þeim í hrærivél, og úr verður einskonar Christopher Nolan greatest hits megamix í kvikmyndaformi. Það er í raun ekkert að því að gera einhverskonar megamix af myndum sínum, vandinn er bara sá að hann sleppir ákveðnum eindum sem kvikmyndir þurfa almennt á að halda. Eindir sem hann passar oftast að séu vel úr garði gerðar. Aðra þessa eind hef ég nú þegar minnst á, þ.e.a.s. skilningur áhorfenda á því sem fyrir augu ber. Annað sem við búumst við í kvikmyndum er samhygð, sem er grunnatriði í hefðbundinni sagnagerð. Það er í góðu lagi að leika sér með samhygð með því að fjalla um persónur sem gera slæma hluti, svokallaðar andhetjur. Það eru tvær kvikmyndir um andhetjur sem ég er mjög hrifinn af sem koma fyrst upp í huga minn: Taxi Driver og Young Adult. Sú fyrrnefnda fjallar um hálf geðveikan fyrrum hermann sem er eltihrellir og morðingi, hin fjallar um konu sem reynir að stela fyrrverandi kærasta sínum frá núverandi eiginkonu sinni, sem nota bene var að eignast sitt fyrsta barn. Þessi aðalpersóna var svo vond að hún reyndi að stela pabba þessa barns frá mömmu þess. Charlize Theron í Young Adult. Tenet gefur áhorfandanum hins vegar ekki einu sinni aðalpersónu sem hægt er að hata, til þess vitum við ekki nægilega mikið um hann John okkar Tenet. Hann hefur enga baksögu, og tilvera hans er tómarúm. Nolan reynir af veikum mætti að skapa einhverskonar tilfinningalega tengingu áhorfandans við John Tenet í gegnum samskipti hans við persónu Elizabeth Debicki, sem leikur fyrrnefnda eiginkonu persónu Kenneths Branaghs (Dr. Evil). Meðul Nolans eru hins vegar allt of veik og óljós. Til þess að áhorfendur geti tengst persónum þurfa þær samhengi og trúverðugleika, bæði skortir Tenet. Gerð er tilraun til að uppfylla þennan skort með því sem í handritaskrifum kallast „save the cat moment.“ Hinum metafóríska ketti er bjargað þegar John Tenet er látinn tína saman sprengjur í upphafi myndar, svo fólk í tónleikasal deyi ekki. Þetta er svo augljóslega atriði sem skrifað er inn í handritið til að reyna að búa til einhverskonar jákvæða tengingu við aðalpersónuna. Það er hins vegar svo einangrað og augljóst, að áhrifin verða aum og tilgerðarleg. Mér var eiginlega hlátur í huga, þetta var svo augljós uppfyllingar „kattarbjörgun.“ Það er í raun ótrúlegt að jafn reyndur kvikmyndagerðarmaður og Nolan skuli gera svona feil. Það er ekki eins og hann skilji ekki gildi þessara einda í kvikmyndaskrifum, hann hefur sannað hæfni sína í að mynda sterka taug við áhorfendur með Interstellar. Svo sýndi hann í tilfelli Inception að hann getur gert flóknar myndir sem láta ekki venjulegu fólki líða eins og það sé að taka háskólakúrs í stærðfræði. Þegar einn af aðalleikurum myndarinnar, Robert Pattison, var nýlega spurður um hvað hún væri, var svar hans: „Hvern andskotann get ég sagt? Ég hef bara ekki hugmynd um það.“ Ef hann veit það ekki, hvernig er hægt að ætlast til að við vitum það? Almennir bíógestir hafa ekki áhuga á að láta rugla svo mikið í sér að þeir viti oftast ekki hvað er í gangi, a.m.k. ekki Sambíógestir, kannski Bíó Paradísargestir, en þetta er hins vegar risa Hollywood-kvikmynd en ekki frönsk framúrstefna (eða, eitthvað álíka). Leonardo DiCaprio betri en enginn Akkilesarhæll Nolans hefur verið að hann stendur sig ekki jafn vel þegar hann er einn á ferð, en hann er einmitt eini skráði höfundur handrits Tenet. Hann var t.d. ekki eini höfundur Interstellar, hana skrifaði hann ásamt bróður sínum, Jonathan Nolan, sem er einnig meðhöfundur að The Dark Knight og nú aðalhöfundur sjónvarpsþáttanna Westworld (ásamt eiginkonu sinni Lisu Joy). Einhverjir gætu þá bent á að Nolan er einn skrifaður fyrir handriti Inception, það er hins vegar ekki jafn einfalt og það virðist. Þar var hann með Leonardo DiCarprio í aðalhlutverki, einn stærsta leikara Hollywood, en fram hefur komið í viðtölum að DiCaprio hafði mikið með handrit myndarinnar að segja og var með svipuna á baki Nolans í ferlinu. Hvað var það sem Leo var mest í mun að bæta? Jú, samhygð og skýrleika. Eða líkt og framleiðandi Inception, Emma Thomas, sagði: „Sú vinna sem Leonardo lagði í karaktersköpun með Chris, gerði myndina að minni þraut og meiri sögu af persónum sem áhorfendur geta tengst.“ Góðir samstarfsmenn eru gulls ígildi. Ó hve Nolan þurfti á einu stykki Leonardo DiCaprio að halda í þetta verkefni með sér. Ég er handviss um að útkoman hefði verið betri. Að sjálfsögðu er Tenet ótrúlega flott kvikmynd, en á maður að hoppa hæð sína yfir því að ein dýrasta mynd sögunnar sé vel gerð, og með flottum hasaratriðum? Á meðan á áhorfinu stóð leið mér eins og ég væri gestur fordekraðs barns milljarðamærings sem væri að sýna mér allt flotta dótið sitt. Það er alltaf sagt að peningar geti ekki fært þér hamingju, en þeir geta ekki heldur fært þér fullnægjandi kvikmynd einir og sér, og Tenet er sannarlega ekki fullnægjandi kvikmynd. Ég vona samt virkilega að sem flestir skelli sér á hana og geri upp hug sinn sjálfir, því þetta er mynd sem kvikmyndaunnendur verða að sjá, hvort sem þeim svo líkar hún eða ekki. Svo þarf auðvitað að halda kvikmyndahúsunum á lífi, því ekki viljum við missa þau. Niðurstaða: Þrjár stjörnur. Þar sem hún á að vera bjargvættur kvikmyndahúsanna langar mig mikið til að geta gefið Tenet fleiri stjörnur, en til þess skortir hana of margar af þeim eindum sem prýða framúrskarandi kvikmyndir. Flott hasaratriði eru til einskis ef manni er nokk sama um persónurnar og samhengi þeirra er ekki merkilegra en raun ber vitni. Hér að neðan er hægt að heyra Heiðar Sumarliðason fara nánar ofan í saumana á Tenet með sviðslistakonunni Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur og ritstjóranum Tómasi Valgeirssyni í hlaðvarpsþættinum Stjörnubíói.
Bíó og sjónvarp Stjörnubíó Mest lesið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Króli trúlofaður Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira