Innlent

Trampólín og tré lentu á bílum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gul veðurviðvörun var í gildi á höfuðborgarsvæðinu og víðar í gærkvöldi og nótt. Myndin er úr safni.
Gul veðurviðvörun var í gildi á höfuðborgarsvæðinu og víðar í gærkvöldi og nótt. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Eitthvað var um tjón á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi vegna veðurs ef marka má dagbók lögreglu þennan morguninn. Gul veðurviðvörun í gildi á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt vegna hvassviðris og rigningu og voru íbúar beðnir um að huga að lausamunum.

Að því er segir í dagbók lögreglu var upp úr klukkan 20 tilkynnt um fjúkandi þakplötur frá nýbyggingu . Var haft samband við verktaka sem ætlaði að gera ráðstafanir. Upp úr klukkan 22 var tilkynnt um girðingu sem væri að fjúka við nýbyggingu í Kópavogi.

Skömmu fyrir klukkan 23 var svo tilkynnt um brotið tré sem hafði hafnað á bifreið í austurborginni og lokað götunni. Segir í dagbók lögreglu að eigandi bílsins hafi ætlað að gera ráðstafanir vegna málsins og opna fyrir umferð. Um sviptað leyti var tilkynnt um fjúkandi trampólín í Hafnarfirði sem einnig hafði lent á bíl.

Á meðal annars sem greint er frá í dagbók lögreglu er umferðaróhapp sem varð á Breiðholtsbraut laust fyrir klukkan 18 í gærkvöldi. Bíl var ekið á ljósastaur og sagði vitni að ökumaðurinn og farþegi hafi hlaupið af vettvangi.

Parið var handtekið skömmu síðar og reyndist ökumaðurinn vera 16 ára stúlka sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Farþeginn er 18 ára. Var málið afgreitt með aðkomu forráðamanns og tilkynningu til Barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×