Undanþágunefnd Eflingar féllst ekki á að veita undanþágu frá verkfallsaðgerðum á skóla- og frístundarsviði Reykjavíkurborgar til að tryggja þrif í grunnskólum. Þetta staðfestir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við Vísi.
Nefndin kom saman nú í morgun og samþykkti að veita tímabundna undanþágu frá verkfallsaðgerðum á velferðarsviði borgarinnar í ljósi kórónuveirusmitsins sem fregnir bárust af í fyrradag.
Áður hafði nefndin veitt undanþágu frá verkfallsaðgerðum vegna sorphirðu í Reykjavík af sömu ástæðu í samráði við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Sorphirða hefst aftur í Breiðholti á morgun.
Skóla- og frístundarsvið borgarinnar óskaði einnig eftir undanþágu á sama grundvelli en Efling féllst ekki á þau rök.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá því í samtali við mbl.is að borgin hefði óskað eftir þriðju undanþágunni í ljósi leiðbeininga frá almannavörnum um aukin þrif í húsum þar sem þjónusta er veitt.
Segir borgina geta komið í veg fyrir smithættu með því að bjóða ekki þjónustuna
Á hvaða grundvelli hafnið þið þessari beiðni?
„Bara einfaldlega vegna þess að borgin sjálf getur komið í veg fyrir alla hættu með því að bjóða ekki þjónustuna, eins og hún hefur verið að gera bæði í tilfellum þessara tilteknu grunnskóla og líka bara eins og verið er að gera inn á leikskólunum,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
„Við lítum þannig á að borgin hafi í þessu tilviki færar leiðir til þess að bregðast við, sem að verkfallið í sjálfu sér kemur ekki veg í fyrir.“
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir lýstu í gær yfir áhyggjum vegna yfirstandandi og yfirvofandi verkfalla.
„Þetta eru aðgerðir sem geta haft áhrif á viðkvæmustu hópa samfélagsins eins og fólk á hjúkrunarheimilum. Þá getur takmörkuð sorphirða jafnframt dregið úr áhrifamætti sóttvarnaaðgerða,“ sagði í tilkynningu.
Viðar segir að Efling hafi brugðist mjög hratt við undanþágubeiðnum undanfarna daga og yfirleitt afgreitt slíkar beiðnir á innan við sólarhring.