Innlent

Leiður og úrræðalaus Daníel segist hafa reynt að halda í Guðmund bæjarstjóra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daníel Jakobsson og Guðmundur Gunnarsson sjá hlutina ansi ólíkum augum þegar kemur að samstarfi þeirra fyrir Ísafjarðarbæ.
Daníel Jakobsson og Guðmundur Gunnarsson sjá hlutina ansi ólíkum augum þegar kemur að samstarfi þeirra fyrir Ísafjarðarbæ.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðismanna á Ísafirði, segir frásögn Guðmundar Gunnarssonar í Mannlífi á föstudaginn valdi honum ekki aðeins vonbrigðum eða undrun. Hann viðurkennir að hann sé leiður og úrræðalaus eftir lesturinn.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Daníels á Facebook. Meirihlutinn hafi reynt að halda í Guðmund og lagt til lausnir. Guðmundur hafi hins vegar viljað hætta og lagt áherslu á trúnað um starfslokin. Sem Guðmundur hafi sjálfur kosið að rjúfa.

Forsagan er sú að Guðmundur hrökklaðist úr starfi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar í janúar. Hvorugur aðilinn tjáði sig um starfsflokin til að byrja með og vísuðu til ólíkrar sýnur á stefnu sveitarfélganna. Var borið við trúnaði en hann varði ekki lengi.

„Svo kem ég bara heim og tek af þér djobbið“

Guðmundur líkti meirihluta í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem samanstendur af tveimur Framsóknarmönnum og þremur Sjálfstæðismönnum - með Daníel sem oddvita sinn, við plöntuna í Litlu hryllingsbúðinni. Hún væri aldrei ánægð og fengi aldrei nóg.

„Ég sá þá að það var ekki verið að leita að stjórnanda, það var verið að leita að strengjabrúðu,“ sagði Guðmundur í viðtalinu. Þá lýsti hann því að símtal frá Daníel, sem staddur var í Noregi, í desember síðastliðnum sitji mest í honum þegar hann horfi yfir bæjarstjóratíð sína.

Guðmundur er uppalinn Bolvíkingur og flutti með fjölskylduna úr höfuðborginni til Ísafjarðar. Hann hefur lýst brottförinni sem flótta þar sem fjölskyldan sé ekki lengur velkomin á Ísafirði.Vísir/Sammi

„Hann endaði símtalið á því að segja svona í framhjáhlaupi: „Svo kem ég bara heim og tek af þér djobbið.“ Ég man að mér fannst þetta furðulegt og taktlaust og skrýtið. Hver segir svona í gríni eða alvöru? Það fyrsta sem ég gerði var að hringja í konuna mína og spyrja hana hvort ég brygðist of hart við. Hverju ertu mögulega að koma áleiðis? En eftir á að að hyggja skil ég samhengið.“

Segja Guðmund ekki hafa skilið hlutverk bæjarstjóra

Meirihlutinn í Ísafjarðarbæ brást við viðtalinu á föstudag og sagði að Guðmundur hefði sjálfur ákveðið að hætta. Það hafi hann gert þegar „þörfin var hvað mest fyrir samstöðu“ hjá sveitarfélaginu.

„Þrátt fyrir margvíslegar sögusagnir, ekki síst frá Guðmundi sjálfum, er því rétt að leiðrétta nokkrar yfirlýsingar. Það er rangt sem haldið er fram að starfslokin tengist snjóflóðunum á Flateyri og Súgandafirði og það er rangt að bæjarstjóri hafi átt að vera strengjabrúða bæjarstjórnar,“ sagði í yfirlýsingu meirihlutans.

Þá taldi meirihlutinn að Guðmundur hefði ekki gert sér ljóst hvert stjórnsýslulegt eðli starf bæjarstjóra sé og að það hafi ekki uppfyllt væntingar hans miðað við frásagnir hans eftir starfslok.

„Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur verið samstíga í störfum sínum frá upphafi kjörtímabilsins. Það á einnig við um þá ákvörðun að ráða ópólitískan bæjarstjóra. Öllum ummælum um annað er vísað til föðurhúsanna.“

Reyndu að finna lausnir til að halda Guðmundi

Daníel, sem sagðist í samtali við Vísi á dögunum örugglega vera frekur karl, deilir yfirlýsingu meirihlutans með færslu sinni.

„Ég geymi galla. Ég get verið hryssingslegur í samskiptum, ég er óþolinmóður og stundum er djúpt á mýktina í mér. Vafalaust hafa þessir gallar verið meinsemd í samskiptum okkar Guðmundar sem hann tók inn á sig. Mér finnst það virkilega leiðinlegt,“ segir Daníel.

„En í mér býr líka hrá og óspillt réttlætiskennd, ég leitast við að reynast fólki vel, kem heiðarlega fram og held í heiðri trúnað og heilindi.“

Hann sé undrandi, leiður og úrræðalaus eftir að hafa lesið orð Guðmundar.

Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.Vísir/vilhelm

„Það að gera manni það upp að það sé bara ekkert mál að segja einstaklingi upp, sem fjárfest hefur í samfélaginu, til að svala eigin metnaði er eins langt frá því sem ég stend fyrir og ég hugsað mér. Þeir sem skipta mig máli, vita að svo er.“

Starfslok Guðmundar hafi ekkert með snjóflóðin á Flateyri og Súgandafirði að gera eða framgöngu hans í þeim málum.

„Það var skelfileg staða fyrir okkur bæjarfulltrúa og ekki síst íbúa Ísafjarðarbæjar, að missa bæjarstjórann rétt eftir snjóflóðin. Guðmundur óskaði sjálfur eftir að láta af störfum og vildi ekki starfa áfram. Honum leið ekki vel í starfi. Meirihlutinn fundaði með Guðmundi og lagði til lausnir svo Guðmundur fengist til að halda áfram. Allt kom fyrir ekki.“

Guðmundur lagt áherslu á trúnað

Við starfslokin hafi Guðmundur sjálfur óskað eftir trúnaði um orsakir starfsloka hans.

„Meirihlutinn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti það og hefur því lítið tjáð sig um málið. Hins vegar hefur Guðmundur ákveðið sjálfur að aflétta trúnaðinum án samráðs við þann sem Guðmundur óskaði sjálfur eftir að virti trúnað um málið, hans og fjölskyldu hans vegna. Kannski það sé mest lýsandi fyrir vandamálið í samskiptum meirhlutans við Guðmund Gunnarsson.“

Málið hafi fengið á hann persónulega. Það sé bæði vond tilfinning að vera beittur órétti og skærum. Það muni þó vafalaust jafna sig.

„Leiðastur er ég gagnvart samfélaginu sem ég virði, elska og dái. Ísafjarðarbær og íbúar hans eiga allt annað skilið en þá umfjöllun sem dunið hefur á bæjarfélaginu. Hér býr gott og heiðarlegt fólk, ekki alltaf sammála en geymir allt sömu þrána í hjartanu; framgang, framsókn og glæsta framtíð Ísafjarðarbæjar. Guðmundi og fjölskyldu óska ég velfarnaðar, gæfu og hamingju.“

Hann ætli ekki að tjá sig frekar um málið.


Tengdar fréttir

Meirihlutinn segir Guðmund hafa ákveðið að hætta

Meirihlutinn í Ísafjarðarbæ segir að Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóra Ísafjarðar, hafi sjálfur ákveðið að hætta. Það hafi hann gert þegar „þörfin var hvað mest fyrir samstöðu“ hjá sveitarfélaginu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×