Fótbolti

Glódís Perla: Ótrúlega skrýtið að vera ekki að fara á Algarve

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir er orðin einn reynslumesti leikmaður íslenska liðsins.
Glódís Perla Viggósdóttir er orðin einn reynslumesti leikmaður íslenska liðsins. Skjámynd/@footballiceland

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta spilar í dag fyrsta leik sinn á Pinatar æfingamótinu á Spáni en mótið kom í staðinn fyrir Algarve mótið sem íslenska liðið fékk ekki að spila á í ár.

Fyrsti leikur íslenska liðsins er á móti Norður Írlandi og hefst hann klukkan tvö á íslenskum tíma.

Stelpurnar komu út á sunnudaginn og fyrsti æfingadagur var á mánudaginn þar sem leikmennirnir fóru í gegnum ýmis hlaupa- og stökkpróf.

KSÍ tók Glódísi Perlu Viggósdóttur í viðtal á Twitter-síðu sinni.

„Það er ótrúlega skrýtið að vera ekki að fara á Algarve af því við höfum farið þangað í mörg ár og líður ótrúlega vel þar. Það er samt gaman að prófa eitthvað nýtt og það eru frábærar aðstæður hér, völlurinn geggjaður og hótelið fínt. Við erum bara sáttar,“ sagði Glódís Perla.

Mótherji dagsins er Norður Írland sem er í 56. sæti á FIFA-listanum eða 38 sætum neðar en Ísland.

„Við höfum ekki spilað á móti þeim síðan að ég kom inn í landsliðið þannig að það verður mjög spennandi að sjá okkur í þessum leik. Ég held að þær séu á uppleið með sitt lið. Þetta er flottur leikur fyrir okkur og minnir svolítið á leikina sem við erum að fara að spila i apríl. Þetta verður því góður undirbúningur,“ sagði Glódís Perla Viggósdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×