Handbolti

Guðmundur mætir meisturunum í fyrsta leik sínum í þýsku deildinni í sex ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur hefur stýrt íslenska landsliðinu frá því snemma árs 2018.
Guðmundur hefur stýrt íslenska landsliðinu frá því snemma árs 2018. vísir/getty

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, stýrir Melsungen í fyrsta sinn í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Verkefni er ærið, leikur á móti Þýskalandsmeisturum síðustu tveggja ára, Flensburg, á útivelli.

Guðmundur var kynntur sem nýr þjálfari Melsungen á miðvikudaginn var. Hann stýrði liðinu í fyrsta sinn þegar það vann Bjerringbro-Silkeborg, 35-33, í EHF-bikarnum á laugardaginn var.

Guðmundur var ráðinn þjálfari Melsungen til loka yfirstandandi tímabils og ef gagnkvæmur vilji er fyrir hendi er mögulegt að hann geri samning til lengri tíma við félagið.

Sex ár eru síðan Guðmundur stýrði liði síðast í þýsku deildinni. Hann var þjálfari Rhein-Neckar Löwen á árunum 2010-14.

Undir hans stjórn unnu Ljónin EHF-bikarinn 2013 og voru hársbreidd frá því að verða þýskir meistarar ári seinna, á síðasta tímabili Guðmundar með liðið.

Melsungen er þriðja þýska liðið sem Guðmundur þjálfar. Hann stýrði Bayer Dormagen á árunum 1999-2001.

Melsungen er í 7. sæti þýsku deildarinnar með 30 stig eftir 24 leiki. Flensburg er í 2. sætinu með 38 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Kiel.


Tengdar fréttir

Guðmundur tekur við Melsungen

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, hefur verið ráðinn þjálfari Melsungen í Þýskalandi.

Elvar Örn frábær í liði Skjern | Gamla brýnið lagði sitt af mörkum

Elvar Örn Jónsson gerði fimm mörk í sigri Skjern í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta. Alexander Petersson stóð fyrir sínu en Þráinn Orri Jónsson gat ekki komið í veg fyrir tap hjá sínum mönnum er þeir öttu kappi við lærisveina Guðmundar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara Íslands, í Melsungen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×