Handbolti

ÍBV og KA/Þór sprengdu upp baráttuna um úrslitakeppnissæti

Sindri Sverrisson skrifar
Martha Hermannsdóttir skoraði 13 mörk gegn HK. Hér er hún á ferð í leik gegn HK fyrr í vetur.
Martha Hermannsdóttir skoraði 13 mörk gegn HK. Hér er hún á ferð í leik gegn HK fyrr í vetur. vísir/bára

ÍBV vann Stjörnuna 27-25 og KA/Þór hafði betur gegn HK, 33-31, í mikilvægum leikjum í baráttunni um sæti í fjögurra liða úrslitakeppni Olís-deildar kvenna í handbolta í dag. Fram jók forskot sitt á toppnum með sigri á Aftureldingu, 35-11.

KA/Þór og ÍBV eru nú með 14 stig hvort lið, tveimur stigum á eftir HK sem er í 4. sætinu. Stjarnan er með 19 stig í 3. sæti og á góðri leið í úrslitakeppnina þegar þessi lið eiga fjóra leiki eftir.

Darja Zecevic varði vel í marki ÍBV gegn Stjörnunni eða 40% skota sem hún fékk á sig. Ásta Björt Júlíusdóttir var markahæst Eyjakvenna með 8 mörk og Kristrún Ósk Hlynsdóttir gerði 5. Hjá Stjörnunni var Sólveig Lára Kjærnested markahæst með 7 mörk.

Á Akureyri var Martha Hermannsdóttir markahæst en hún skoraði 13 mörk fyrir KA/Þór, þar af sjö af vítalínunni, og Ásdís Guðmundsdóttir skoraði úr öllum 5 skotum sínum. Hjá HK var Díana Kristín Sigmarsdóttir með 9 mörk og Sigríður Hauksdóttir 8.

Topplið Fram jók forskot sitt á Val í fimm stig með öruggum sigri á stigalausu liði Aftureldingar, 35-11, í Mosfellsbæ. Valskonur eiga leik til góða við Hauka sem er að hefjast á Stöð 2 Sport. Allir útileikmenn Fram skoruðu í leiknum en Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst með 6 mörk og þær Steinunn Björnsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir og Unnur Ómarsdóttir gerðu 5 mörk hver. Hjá heimakonum var Telma Rut Frímannsdóttir markahæst með 5 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×