Fótbolti

EM kvenna hefst á Old Trafford

Sindri Sverrisson skrifar
Það verður leikið á Old Trafford á EM kvenna á næsta ári. Manchester United vann þar 3-0 sigur á Watford í dag.
Það verður leikið á Old Trafford á EM kvenna á næsta ári. Manchester United vann þar 3-0 sigur á Watford í dag. vísir/getty

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta á fína möguleika á að komast á Evrópumótið í Englandi sumarið 2021 eftir að hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína í undankeppninni. Komist Ísland í lokakeppnina gæti liðið spilað á sumum af frægustu leikvöngum heims.

Nú hefur verið ákveðið að upphafsleikur mótsins fari fram á Old Trafford, heimavelli Manchester United. Enska landsliðið spilar þann leik en það á eftir að koma í ljós gegn hverjum. Leikurinn fer fram 7. júlí en ljóst er að landsliðsþjálfari Englands er öllum hnútum kunnugur á vellinum þar sem mótið hefst:

„Þetta verður stórkostlegt,“ segir Phil Neville, þjálfari Englands, sem varð sex sinnum Englandsmeistari með Manchester United, þrisvar bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.

Alls tekur Old Trafford við 76.000 stuðningsmönnum en metfjöldi á stakan leik á EM kvenna er 41.301 áhorfendur á leik Þýskalands og Noregs á EM 2013 í Svíþjóð.

Úrslitaleikur EM fer fram á Wembley þann 1. ágúst 2021, rétt eins og úrslitaleikurinn á EM karla sem fram fer 12. júlí í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×