Fótbolti

Í beinni í dag: Stórleikir í Meistaradeild Evrópu

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Lewandowski er markahæstur í Meistaradeild Evrópu og Þýskalandi.
Robert Lewandowski er markahæstur í Meistaradeild Evrópu og Þýskalandi. vísir/getty

Tvö af þeim fimm liðum sem oftast hafa unnið Meistaradeild Evrópu, eða forvera hennar, verða á ferðinni í kvöld þegar tveir leikir fara fram í 16-liða úrslitum keppninnar.

Chelsea tekur á móti Bayern München á Stamford Bridge. Bayern á fimm Evrópumeistaratitla í sínu safni en vann keppnina síðast árið 2013, ári eftir eina Evrópumeistaratitilinn sem Chelsea hefur unnið. Leikmenn Chelsea þurfa að koma böndum á Robert Lewandowski. Pólverjinn er markahæstur í Meistaradeildinni í vetur, ásamt Erling Braut Haaland, með 10 mörk og hefur auk þess varla spilað leik án þess að skora í þýsku 1. deildinni, þar sem hann hefur gert 25 mörk í 23 leikjum.

Á Ítalíu mætast Napoli og fimmfaldir Evrópumeistarar Barcelona. Börsungar eru komnir á toppinn í spænsku 1. deildinni, í aðdraganda El Clásico sem er á sunnudaginn, en Napoli er í 6. sæti á Ítalíu eftir dapurt gengi í nóvember, desember og janúar. Napoli hefur hins vegar rétt úr kútnum undanfarið og getur líka státað sig af því að hafa náð í fjögur stig gegn Evrópumeisturum Liverpool í riðlakeppninni í haust, liði sem þar til í síðustu viku hafði annars verið óstöðvandi á leiktíðinni.

Leikjunum verða gerð góð skil á Stöð 2 Sport í allt kvöld en upphitun hefst kl. 19.15.

Í beinni í dag:

19.15 Upphitun fyrir Meistaradeildina (Stöð 2 Sport)

19.50 Napoli - Barcelona (Stöð 2 Sport 2)

19.55 Chelsea - Bayern München (Stöð 2 Sport)

22.00 Meistaradeildarmörkin (Stöð 2 Sport)


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×