Fótbolti

Norðmenn leyfa bjórsölu á fótboltaleikjum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hinn almenni áhorfandi í Noregi fær loksins að sitja við sama (bjór)borð og hinir útvöldu.
Hinn almenni áhorfandi í Noregi fær loksins að sitja við sama (bjór)borð og hinir útvöldu. vísir/getty

Knattspyrnusamband Noregs hefur ákveðið að aflétta banni á bjórsölu á leikjum í landinu. Norskir knattspyrnuáhugamenn geta því líklega fengið sér einn kaldan á vellinum mjög fljótlega.

Nú er það undir viðkomandi bæjum og sveitarfélögum að leyfa söluna. Það er þar að leiðandi ekki víst að bjór verði til sölu á öllum völlum.

Aðeins hefur verið veitt áfengi á VIP-svæðum hingað til en nokkur félög hafa samt gengið lengra og boðið upp á bjórtjöld eða sérsvæði fyrir almenna áhorfendur þar sem er áfengissala. Mjög svipað því og fólk þekkir hér á landi.

Nú verður aftur á móti hægt að selja bjórinn á öllum stöðum vallarins en ekki má taka hann með sér inn á völlinn. Menn verða að klára söngvatnið áður en þeir fá sér sæti. Norska sambandið hefur gefið græna ljósið og nú er komið að sveitarfélögunum.

Framkvæmdastjóri norska knattspyrnusambandsins, Pål Bjerketvedt, sagði að þetta hefði verið auðveld ákvörðun og enginn ágreiningur um hana innan stjórnarinnar.

„Það verða eflaust ekki allir ánægðir með þessa breytingu en í grunninn er hún ekkert sérstaklega stór. Þetta er í rauninni gert svo allir geti fengið sér vínglas eða bjór fyrir leik. Ekki bara útvaldir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×