Norska knattspyrnufélagið Rosenborg kynnti í dag hinn reynslumikla Åge Hareide sem nýjan þjálfara liðsins. Hann mun þó ekki stýra liðinu gegn Breiðabliki.
Breiðablik og Rosenborg mætast í Þrándheimi 27. ágúst, í forkeppni Evrópudeildar karla í fótbolta. Óvissa ríkti um það hvort staða Íslands á rauðum lista í Noregi, sem þýðir að íslenskir ferðamenn þurfa að fara í sóttkví við komu til Noregs, hefði áhrif á Blika. Þeirri óvissu hefur nú verið eytt og sleppa Blikar við sóttkví. Þetta staðfesti Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, við Vísi í dag.
Breiðablik mun því ferðast eftir sinni áætlun, út til Noregs þann 25. ágúst og svo heim aftur eftir leik tveimur sólarhringum síðar. Þá verður væntanlega orðið ljóst hvort knattspyrnulið fái undanþágu frá reglum um sóttkví við komu til Íslands, vegna leikja á vegum UEFA þar sem gerðar eru strangar kröfur um sóttvarnir.
Fyllti í skarðið í tvo mánuði og stýrir Rosenborg geng Blikum
Hinn nýi þjálfari Rosenborg, Hareide, hefur stýrt liðum til meistaratitils í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, auk þess að þjálfa norska og danska landsliðið. Það er einmitt Rosenborg sem hann stýrði til meistaratitils í Noregi árið 2003.
Hareide mun þó ekki hefja störf að nýju hjá Rosenborg fyrr en 1. september. Rosenborg hóf þjálfaraleit eftir að Eirik Horneland hætti hjá liðinu 26. júní síðastliðinn. Síðustu tvo mánuði hefur Trond Henriksen stýrt liðinu til bráðabirgða og hann verður við stjórnvölinn í leiknum við Breiðablik.