Viðskipti innlent

Ný mæling sýnir 200 þúsund tonna loðnustofn og ákveðið að leita betur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Birkir Bárðarson fiskifræðingur er leiðangursstjóri um borð í Árna Friðrikssyni.
Birkir Bárðarson fiskifræðingur er leiðangursstjóri um borð í Árna Friðrikssyni. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Nýjar loðnutorfur sem fundist hafa undan Norðurlandi gefa vonarglætu um að ekki sé öll nótt úti enn um loðnuvertíð og hefur verið ákveðið að framlengja loðnuleit hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar og undirbúa þriðja leitarleiðangur veiðiskipa. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

Loðnuleiðangri númer tvö er núna lokið og veiðskipin fjögur sem tóku þátt flest snúin til hafnar en þau voru Margrét, Aðalsteinn Jónsson, Börkur og Polar Amaroq.

Ferlar skipanna nú síðdegis. Þau sem tóku þátt í loðnuleiðangri númer tvö eru þannig táknuð: Ljósblár Árni Friðriksson, rauður Margrét, hvítur Börkur, bleikur Aðalsteinn Jónsson, gulur Polar Amaroq.Mynd/Hafrannsóknastofnun.

Ákveðið er hins vegar að Árni Friðriksson haldi leit áfram en hafrannsóknskipið er núna undan suðausturlandi og sagði Birkir Bárðarson leiðangursstjóri nú síðdegis að verið væri að undirbúa að fá veiðiskip með í nýjan leiðangur, þann þriðja í röðinni. 

Ástæðan eru loðnutorfur sem fundust vestur af Kolbeinseyjarhrygg, suðvestan Kolbeinseyjar, en þær hafa kveikt nægilega mikla von til þess að menn eru ekki ennþá tilbúnir að afskrifa loðnuvertíð í ár.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson hóf fyrsta leitarleiðangurinn þann 13. janúar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Birkir tekur þó fram að enn vanti talsvert upp á til að unnt sé að leyfa veiðar en eftir leiðangurinn núna metur hann loðnustofninn gróflega upp á 200 til 250 þúsund tonn. Það er fjórfalt meira en eftir fyrsta leiðangurinn, sem sýndi aðeins 64 þúsund tonn. 

Talan þarf hins vegar að komast yfir 400 þúsund tonn til að aflaregla heimili veiðar.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Loðnan langt undir mörkum

Stærð hrygningarstofns loðnu samkvæmt mælingum í janúar var um 64 þúsund tonn. Er það langt undir þeim mörkum í gildandi aflareglu sem þarf að ná svo Hafrannsóknastofnun geti ráðlagt veiðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×