Samherji krefur Ríkisútvarpið um afsökunarbeiðni og leiðréttingu á „meiðandi frétt“ sem sýnd var í tíufréttum RÚV síðasta fimmtudagskvöld. Þetta kemur fram í erindi sem Samherji sendi stjórn Ríkisútvarpsins í dag. Fyrirtækið sakar fréttastofuna um að bera órökstuddar ásakanir um refsiverðan verknað á hendur Samherja, sem og brot á eigin vinnureglum.
Frétt Ríkisútvarpsins fjallaði um þróunaraðstoð og spillingu. Rætt var á almennum nótum við Susönnu Moorehead, formann Þróunarsamvinnunefndar OECD, um málaflokkinn. Nefnt var sérstaklega að Íslendingar hefðu veitt Namibíumönnum þróunaraðstoð árum saman, og myndir sýndar af skipi og stjórnendum Samherja.
Þá sagði orðrétt í fréttinni: „Þegar aðstoðinni var lokið tókst Samherja hins vegar að afla sér kvóta í landinu með því að múta embættismönnum […] Heimamenn nutu því ekki aðstoðarinnar sem veitt var.“
„Fyrirvaralaus ásökun um alvarlegan refsiverðan verknað“
Í erindi sem Samherji hefur sent bæði stjórn Ríkisútvarpsins og nýjum útvarpsstjóra Stefáni Eiríkssyni segir að þessi fullyrðing eigi sér enga stoð í raunveruleikanum og sé úr lausu lofti gripin.
„Þetta hefði mögulega mátt forðast hefði Samherja verið gefinn kostur á andmælum áður en fréttin var flutt svo sem reglur áskilja.“ Þá gerir Samherji jafnframt athugasemd við fleiri þætti fréttarinnar.
„Auk þess er í fréttinni stillt upp erlendum viðmælenda sem ræðir um spillingu og látið líta út eins og umræðuefnið sé mál Samherja, sem fréttastofunni er undarlega hugleikið. Viðmælandinn sagði þó ekkert um Samherja í viðtalinu. Á meðan voru sýndar myndir af stjórnendum Samherja.“

Gagnrýninn sonur stjórnarmanns
Þá sakar Samherji Ríkisútvarpið um að hafa með fréttinni brotið gegn vinnureglum fréttastofunnar með a.m.k. tvennum hætti. Enn alvarlegra sé þó að fullyrðing fréttamanns Ríkisútvarpsins um að Samherji hafi mútað embættismönnum í Namibíu „er fyrirvaralaus ásökun um alvarlegan refsiverðan verknað og hún er ekki studd neinum rökum,“ segir í erindi Samherja.
„Samherji hefur hvorki verið sakfelldur né ákærður fyrir slík brot eða önnur. Enginn starfsmaður Samherja hefur réttarstöðu sakbornings vegna málsins. Fullyrðing um að heimamenn í Namibíu hafi ekki notið þróunaraðstoðar vegna meintra athafna Samherja er líka til þess fallin að verða virðingu Samherja til hnekkis.“
Magnús Óskarsson hæstaréttarlögmaður skrifar undir erindið fyrir hönd Samherja. Magnús er sonur Óskars Magnússonar, stjórnarmanns í Samherja, og nú síðast í janúar var birt eftir hann grein í Morgunblaðinu, þar sem hann gagnrýnir fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir ófagleg vinnubrögð.
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur tók starfsemi Samherja til umfjöllunar í nóvember síðastliðnum, líkt og frægt er orðið. Samherji er sakaður um að hafa greitt namibískum embættismönnum mútur í skiptum fyrir ódýran fiskveiðikvóta. Sex einstaklingar, þar af tveir fyrrverandi ráðherrar, sitja nú í gæsluvarðhaldi í Namibíu vegna málsins. Héraðssaksóknari hefur jafnframt mál Samherja til rannsóknar hér á landi.