Innlent

Braut­ryðjandinn byrjuð að tengja stýri­búnað á fimm stjörnu hóteli

Atli Ísleifsson skrifar
Margrét Halldóra Arnarsdóttir hlaut yfirburðarkosningu.
Margrét Halldóra Arnarsdóttir hlaut yfirburðarkosningu. Vísir/Baldur

„Nú er ég að tengja stýribúnað fyrir hótelherbergi,“ segir Margrét Halldóra Arnarsdóttir, nýkjörinn formaður Félags íslenskra rafvirkja. Margrét Halldóra ræddi við umsjónarmenn Bítisins í morgun í tilefni af því að hún hlaut afburðakosningu sem formaður, en hún verður fyrsta konan til að gegna embættinu.

„Það á hver og einn að gera stýrt sínu herbergi – hitanum, ljósunum. Þegar þetta er fimm stjörnu hótel þá þarf þetta að vera flott,“ segir Margrét sem sinnir nú rafmagnsvinnu á framkvæmdasvæði Marriott-hótelsins við Reykjavíkurhöfn.

Á kjörskrá voru 1.969 manns og greiddu alls 867 manns atkvæði. Hlaut Margrét Halldóra 725 atkvæði, eða um 84 prósent atkvæða. Borgþór Hjörvarsson, fráfarandi formaður, hlaut um 16 prósent atkvæða.

Margrét Halldóra hefur gegnt embætti gjaldkera FÍR síðustu misserin og mun taka við formennsku á aðalfundi sem fram fer í apríl.

Félag íslenskra rafvirkja er aðildarfélag að Rafiðnaðarsambandi Íslands, en nýr kjarasamningur félagsmanna Rafviðnaðarsambandsins og Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka var samþykktur í maí í fyrra með 49 prósent greiddra atkvæða en 47,6 prósent sögðu nei. Rafvirkjar voru verulega ósáttir við samninginn og hefur að hann hefði verið felldur hefðu rafvirkjar setið einir að atkvæðagreiðslu.

Hlusta má á viðtalið við Margréti Halldóru í spilaranum að neðan.


Tengdar fréttir

Margrét kjörin for­maður FÍR fyrst kvenna

Margrét Halldóra Arnarsdóttir var í dag kjörin formaður Félags íslenskra rafvirkja, fyrst kvenna. Margrét hlaut afburðakosningu og mun taka við sem formaður á aðalfundi félagsins í apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×