Enski boltinn

Segir tap Liverpool í gær sýna og sanna að spænska deildin sé betri en sú enska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Saul Niguez skorar eina mark leiksins og tryggir Atletico Madrid sigurinn.
Saul Niguez skorar eina mark leiksins og tryggir Atletico Madrid sigurinn. Getty/Michael Regan

Liverpool hefur verið yfirburðarlið á Englandi í vetur en tapaði fyrri leiknum á móti Atletico Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Liverpool er með 25 stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en tapaði í gærkvöldi á móti liði sem er í fjórða sæti spænsku deildarinnar. Þetta þýðir bara eitt að mati fyrrum forseta Real Madrid.

Enska úrvalsdeildin átti bæði liðin í úrslitum Meistaradeildarinnar (Liverpool vann Tottenham) og úrslitum Evrópudeildarinnar (Chelsea vann Arsenal) á síðasta tímabili og þótti í huga margra hafa tekið fram úr spænsku deildinni.

Ramon Calderon, fyrrum forseti Real Madrid, segir að spænska deildin sé betri en sú enska og úrslitin á í gærkvöldi hafi sýnt það og sannað.



Liverpool hafði aðeins tapað tveimur leikjum á tímabilinu þegar kom að leiknum á móti Atletico Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.

Saul Niguez skoraði eina mark leiksins strax á fjórðu mínútu og þrátt fyrir að Liverpool væri mikið með boltann tókst liðinu ekki að opna vörnina hjá vinnusömu liði Atletico Madrid sem fékk frábæran stuðning á pöllunum.

Ramon Calderon var forseti Real Madrid á árunum 2006 til 2009. Hann fór inn á Twitter til að tjá skoðun sína á því hvor deildin væri betri.



„Leikurinn á milli @LFC og @Atleti setur aftur í gang í umræðuna um hvort enska úrvalsdeildin eða spænska deildin sé betri. Úrslitin í gær er klár sönnun á því hvor deildin sé betri. @LFC er með 25 stiga forskot á toppnum en Atlético er í fjórða sætinu og þrettán stigum á eftir toppliðinu,“ skrifaði Ramon Calderon.

„Ég skil vel þau sjónarmið að þetta hafi aðeins verið fyrri leikurinn. Ég geri mér grein fyrir því en við fengum samt skýra mynd í þessum leik. @LVP náði ekki skoti á mark á 90 mínútum,“ skrifaði Ramon Calderon.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×