Útfarir þeirra Guðrúnar Ögmundsdóttur og Vilhjálms Einarssonar fara fram í dag, báðar frá Hallgrímskirkju. Útför Guðrúnar hefst klukkan 11 og Vilhjálms klukkan 15 en þau féllu bæði frá í lok síðasta árs.
Guðrún og Vilhjálmur voru bæði þjóðþekkt í lifanda lífi; Guðrún fyrir störf sín á vettvangi stjórnmálanna og Vilhjálmur fyrir íþróttaafrek sín. Þeirra hefur verið minnst með hlýhug, eins og sjá má á þeim tveimur opnum sem eru undirlagðar minningargreinum um þau tvö í Morgunblaðinu í dag.
Guðrún sat á Alþingi fyrir Samfylkinguna frá 1999 til 2007 og gegndi hún embætti borgarfulltrúa frá 1992 til 1998. Þar áður hafði hún verið varaborgarfulltrúi. Frá því að Guðrún lauk störfum á þingi hafði hún starfað sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu og síðar sem tengiliður vegna vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu auk þess sem hún var formaður Unicef frá 2016 til 2018.
Vilhjálmur lagði mikið af mörkum til íslenskra fræðslu- og æskulýðsmála, meðal annars sem skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum frá upphafi skólans 1979 til ársins 2001. Þá var hann meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar. Meðal annars vann hann til silfurverðlauna fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og var 5 sinnum kjörinn íþróttamaður ársins.
Guðrún og Vilhjálmur kvödd í dag

Tengdar fréttir

Andlát: Vilhjálmur Einarsson
Vilhjálmur er meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar.

Andlát: Guðrún Ögmundsdóttir
Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi, lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi í gærmorgun.

Með gleðina í lífinu sem ferðafélaga
Fjöldi manna minnist Guðrúnar Ögmundsdóttur en hún naut fádæma vinsælda og virðingar samferðarmanna.