Innlent

Spá versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflunum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Skjáskot/Veðurstofan

Útlit er fyrir norðvestan- og vestanátt í kvöld, víða 10 til 15 metrar á sekúndu. Él verður á vestanverðu landinu en úrkomulítið austantil. Éljagangur getur skapað erfið akstursskilyrði á vestanverðu landinu í kvöld samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Útlit er fyrir hríð á Norðausturlandi á morgun og hvassviðri eða storm austan- og suðaustanlands. Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir austanvert landið á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu er varað við stormi, lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum á Norðurlandi Eystra og samgöngutruflanir eru líklegar á milli 11 og 16 á morgun 

Á Austurlandi að glettingi er gul viðvörun vegna hvassviðri eða storms frá 9 til 13 á morgun og spáð norðvestan 18 til 23 metrum á sekúndu og él. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll sem geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Á Austfjörðum er sama gula viðvörunin í gildi frá 9 til 16 á morgun.

Á Suðausturlandi er gul viðvörun frá 11 til 16 á morgun vegna storms. Veðurstofan spáir þar norðvestan 20 til 25 metrum á sekúndu austan Öræfa og mjög snörpum vindhviðum við fjöll sem geta verið hættulegar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.


Tengdar fréttir

„Nóg að gera“ í veðrinu þessa dagana

Færð verður víða mjög slæm á landinu í dag og því er beint til vegfarenda að huga vel að veðurspám og fara varlega áður en lagt er af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×